Framkvæmdir við endurgerð Hofsvallagötu í Reykjavík sem til stóð að hæfust á þessu ári munu að líkindum ekki hefjast fyrr en á því næsta.
Drög að endurhönnun götunnar voru lögð fyrir umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar í vikunni.
„Það hefur sýnt sig að það borgar sig að flýta sér ekki um of í þessum málum. Ég býst við að framkvæmdir fari ekki af stað á þessu ári heldur því næsta. Það verður bara unnið að hönnun og síðan lagt fyrir íbúa í haust. Ég held að það borgi sig bara að gefa sér góðan tíma í það,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður ráðsins.