Varðskipið Týr hefur undanfarna tvo mánuði sinnt verkefnum í þjónustu norska sýslumannsins á Svalbarða. Skipið sinnir þar eftirlits- og björgunarstörfum auk almennri löggæslu og þjónustustörfum. Meðal annars hefur skipið sinnt því verkefni að flytja vísindamenn á staði fjarri byggð og sótt þá viku síðar.
Týr siglir undir norskum fána á meðan skipið er í þjónustu sýslumannsins á Svalbarða og var það ennfremur málað hvítt og rautt af því tilefni. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var Týr þurrleigður til fyrirtækisins Fáfnir Offshore sem áfram leigði skipið til sýslumannsins. Fyrir vikið hefur Týr verið tímabundið umskráður á norskt flagg. Þurrleiga þýðir að skip er í þessu tilfelli áfram skráð í íslensku skipaskrána en tímabundið skráð í þá norsku.
Þess má geta að samkvæmt lögum um skráningu skipa nr. 115/1985 telst skip sem skráð er á íslenska skipaskrá og skráð þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá „ekki vera íslenskt skip og hefur ekki rétt til að sigla undir þjóðfána Íslendinga meðan á þurrleiguskráningunni stendur.“ Lagalega er Týr þar með ekki íslenskt skip á meðan það er í þurrleigu í Noregi.
Aðstæður við Svalbarða eru mjög ólíkar því sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar eiga að venjast við Ísland og því felur verkefnið í sér mikla reynslu fyrir þá samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni. Tveir starfmenn hennar eru í áhöfn skipsins við Svalbarða. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki í lok september.