Sigrún Ósk rauðhærðasti Íslendingurinn

Sigrún Ósk Árnadóttir, rauðhærðasti Íslendingurinn, Baltasar Breki, sem var valinn …
Sigrún Ósk Árnadóttir, rauðhærðasti Íslendingurinn, Baltasar Breki, sem var valinn sá efnilegasti, og faðir Baltasars, Símon Gísli Símonarson. Aðsend mynd

Sextán ára Dalvíkingur, Sigrún Ósk Árnadóttir, var valin rauðhærðasti Íslendingurinn á Írskum dögum á Akranesi í dag. Að launum fær hún ferð til Dublin á Írlandi fyrir tvo með Úrval Útsýn og hyggst hún bjóða pabba sínum með.

Keppninn var haldin í fimmtánda skipti í dag og voru 35 rauðhærðir Íslendingar skráðir til leiks. Efnilegasti rauðhærði Íslendingurinn var einnig valinn, en hinn ungi Baltasar Breki Símonarson hreppti þann titil.

Dómarar voru Katla Hallsdóttir og Helena Rut Steinsdóttir sem báðar eiga hárgreiðslustofur á Akranesi, að því er fram kemur í tilkynningu.

Sigrún gerði sér sérstaklega ferð á Írska daga til að taka þátt í þessari keppni. „Systir bekkjarsystur minnar sigraði einu sinni í keppninni og síðan hefur fólk verið að hvetja mig til að fara og keppa,“ segir Sigrún sem sér ekki eftir þeirri ákvörðun.

Rauði liturinn á hárinu kemur frá móður hennar en Sigrún er sú eina af sex systkinum sem fékk hann í arf. „Mamma var með alveg eins lit á hárinu og ég þegar hún var yngri en það er orðið ljósara í dag,“ bætir hún við.

Eins og áður sagði hyggst Sigrún bjóða pabba sínum með til Dublin en hún segir að þau feðgin hafi aðeins einu sinni áður farið saman til útlanda. „Hann hefur áður komið til Dublin en ekki ég. Ég er mjög spennt að koma þangað og skoða mig um í borginni.“

Írskir dagar hafa staðið yfir á Akranesi frá því á fimmtudag en þeim lýkur á morgun, sunnudag. Þá verður boðið upp á fjölskyldudagskrá í skógræktinni Garðalundi.

Sigrún Ósk Árnadóttir ásamt móður sinni, Guðbjörgu Jóhannesdóttur.
Sigrún Ósk Árnadóttir ásamt móður sinni, Guðbjörgu Jóhannesdóttur. Aðsend mynd
Baltasar Breki fagnaði því innilega þegar hann var valinn efnilegasti …
Baltasar Breki fagnaði því innilega þegar hann var valinn efnilegasti rauðhærði Íslendingurinn. Aðsend mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert