Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, segir að sú þróun, að stórar verslunarkeðjur komi á markað, hafi ekki stuðlað að fjölbreytni.
Í pistli á heimasíðu sinni segist hann ekki vera yfir sig hrifinn, eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að fá hingað til lands bandarísku verslunarkeðjuna Costco.
Eins og greint hefur verið frá stefnir Costco hraðbyri að því að opna verslun hér á landi.
Ögmundur segir að tilkoma risakeðja hafi vissulega orðið til að færa niður verð á vöru í krafti stærðarhagkvæmni. Öðrum og smærri verslunum hafi fyrir vikið verið ýtt út af markaði.
„Örfáar samsteypur keppa síðan sín á milli. Sú samkeppni hefur sína kosti þótt tilhneigingin virðist jafnan vera sú að samkeppnisaðilar svokallaðir, lagi sig hver að öðrum, sjálfum sér, en síður neytendum til góða. Hitt er svo ljóst að þessi þróun hefur ekki stuðlað að fjölbreytni,“ segir hann.
Hann fjallar um gítarleikarann Eric Clapton sem hefur nýlega lýst því yfir að hann ætli senn að hætta tónleikahaldi.
„Hann væri að eldast en svo væri líka hitt að heimurinn væri sér ekki eins spennandi og eftirsóknarverður og áður var. Ástæðan væri sú að allt væri að verða einsleitara, hvert land á fætur öðru í sívaxandi mæli að fá ásýnd bandarískra verslunarhátta. Þessi þróun væri sýnilega farin að draga úr fjölbreytileika. Ekki væri þetta eftirsóknarverð þróun nema síður væri.
Ætli sé ekki eitthvað til í þessu.
Í Bandaríkjunum er vissulega til margt það besta en einnig það versta. Óþarfi þykir mér að fagna því versta. Þar er ég sammála Eiríki en ekki Bjarna og Elínu,“ segir Ögmundur.