Tjöld og kamrar fjúka á Rauðasandi

Frá Rauðasandi.
Frá Rauðasandi. mbl.is/RAX

Leiðindaveður er nú á Rauðasandi þar sem fram fer tónleikahátið og hafa björgunarsveitir frá Tálknafirði, Bildudal og Patreksfirði verið kallaðar út til aðstoðar gestum.

Skipuleggjendur hátíðarinnar höfðu fært hana yfir á Patreksfjörð á fimmtudag en í gær töldu þeir að veður yrði skárra á Rauðasandi og færðu hátíðina aftur þangað, segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Í morgun breyttist svo vindátt og nú er allt að fjúka á hátíðinni, tjöld, kamrar og lausir munir. Nokkur hundruð manns höfðu borgað sig inn á hátíðina en ekki er vitað hversu margir eru enn á svæðinu. Fólkinu verður hjálpað að taka saman búnað sinn og það svo flutt yfir á Patreksfjörð þar sem búið er að opna félagsheimilið fyrir hópinn.

Það hefur fokið víðar á Vestfjörðum í morgun því á sjötta tímanum var Björgunarsveitin Dýri á Þingeyri kölluð út þegar stórt veitingatjald sem var á tjaldsvæði bæjarins fór að fjúka, segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert