Ný þjóðhagsspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir 3,8% atvinnuleysi í ár og 3,5% atvinnuleysi 2015 og 2016.
Rætist spáin er um mikil umskipti að ræða í mannaflsfrekum greinum. Má þar nefna að samkvæmt greiningu Vinnumálastofnunar, sem gerð var fyrir Morgunblaðið, varð atvinnuleysi í mannvirkjagerð eftir hrun mest í mars 2009, eða 27,6%. Það varð mest 16,6% í flutningastarfsemi í febrúar 2010 og mest 14,2% í fiskiðnaði í mars 2011.
Spurður um spána um þróun atvinnuleysis segir Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, „þetta nálgast það sem hægt er að komast niður í innan hreyfanlegs nútímahagkerfis“. Útlit sé fyrir að atvinnuleysi hjá mörgum stéttum verði hverfandi næstu misserin, m.a. hjá iðnaðarmönnum, sem finni vel fyrir áhrifum hagsveiflunnar.
„Það er þó misvægi á vinnumarkaði. Það vantar störf fyrir háskólamenntaða. Það er hins vegar eftirspurn eftir fólki í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, en í þeim greinum virðist stefna í skort á vinnuafli. Því má búast við innflutningi á vinnuafli,“ segir Karl um horfurnar.
Samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar má draga þá ályktun að þrýstingur muni skapast á launahækkanir í þeim greinum þar sem samningssaða launamanna er góð.
Þrátt fyrir umskipti á vinnumarkaði má ráða af spánni að áfram verði þröngt í búi hjá þúsundum íslenskra heimila vegna erfiðrar skuldastöðu. Um þau mál segir orðrétt í spánni: „Þó horfur séu góðar á að einkaneysla vaxi á næstunni eru enn ýmis neikvæð teikn á lofti. Margir einstaklingar eru enn í alvarlegum vanskilum. Meðallaun eftir skatta á árinu 2012 voru með svipaðan kaupmátt og var árið 2004, en það ár voru skuldir heimilanna um 78% af landsframleiðslu og 155% af ráðstöfunartekjum en á árinu 2012 voru þessi hlutföll 106% annarsvegar og 224% hinsvegar.“