„Hlustið, færið ykkur!“

Hundruð manna söfnuðust saman til að fylgjast með eldsvoðanum í Skeifunni í kvöld. Fólk með börn, hunda, á hjólum og jafnvel með barnavagna. „Hlustið, færið ykkur,“ hrópaði lögreglumaður á mannfjöldann á meðan slökkvi- og lögreglubílar reyndu að fikra sig nær í gegnum mannþröngina.

Fljótlega eftir að eldurinn kom upp, í fatahreinsuninni Fönn, var ljóst að hann var mikill og breiddist hratt út. Í fyrstu var hann aðallega bundinn við Fönn en fljótlega stóð verslunin Griffill í ljósum logum og gríðarlegur reykur var inni í versluninni Rekstrarlandi sem er við hlið Fannar. Slökkviliðsmenn brutu rúður í versluninni og reyksúlur stóðu út um brotna gluggana. Eldurinn hélt áfram að magnast og eldtungurnar stóðu fleiri metra upp í loftið. Lögreglan naut liðsinnis Securitas við að reyna að rýma svæðið. Sprengihætta var á ferð og því nauðsynlegt að rýma. Þá var ljóst að bílar slökkviliðs og lögreglu þurftu að fá greiðan aðgang að svæðinu.

Vopnaðir snjallsímum voru þó ekki allir á því að færa sig. Að minnsta kosti ekki strax. Lögreglumenn sýndu flestum þolinmæði en þó þurftu þeir að byrsta sig við nokkra sem stóðu sem fastast, beinandi snjallsímunum í átt að eldinum.

Dæmi voru um að brosandi fólk tæki „selfies“ af sér, með eldinn í baksýn. „Sjáðu eldinn,“ sagði faðir við nokkurra ára son sinn sem hann var með í fanginu, skammt frá þeim stað sem mestur eldur logaði í Griffli. Á meðan voru reykkafarar að fjarlægja eldfim efni úr efnalauginni Fönn.

„Best að snappa þetta,“ sagði karlmaður og sendi svo mynd eða myndskeið til vina sinna á Snapchat.

Þröngt er umhverfis byggingarnar sem nú eru að brenna. Fjöldi bíla stendur líka á bílastæðunum. Umferð í kringum Skeifuna er á hraða snigilsins.

Stórt svæði var að lokum rýmt. Ekki sála var inni á KFC, sem er aðeins í nokkurra metra fjarlægð frá byggingunum sem brenna. Sömu sögu er að segja um verslunina Víði. Dyrnar standa opnar en enginn er innandyra.

Gott veður er í Reykjavík; logn og hlýtt. Svo virðist hreinlega sem margir hafi ákveðið að horfa á eldsvoðann í stað þess að sitja fyrir framan sjónvarpið í kvöld. 

Líklega verður eldurinn í Skeifunni sá atburður Íslandssögunnar hingað til sem flestar myndir og myndskeið verða tekin af. Facebook, Instagram og Twitter loga í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert