„Ótrúlega bráður eldur“

Um það bil 30 slökkviliðsmenn eru nú að störfum í Skeifunni í Reykjavík þar sem stórbruni varð í gærkvöldi. Unnið er að því að reyna að slökkva í þeim glæðum í byggingunum sem enn logar í. Aðeins fjórðungur hússins stendur heill eftir. Annað er farið.

„Við erum búnir að ná tökum á þessu að mestu leyti,“ segir Björn Már Björnsson, deildarstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is á þriðja tímanum í nótt. Hann tekur hins vegar fram að menn hafi varann á.

Björn Már segir að unnið verði að því í nótt að leita að svokölluðum eldhreiðrum inni í rústunum.

Hann segir að það hafi ekki gengið nógu vel að ná að slökkva vel í öllum glæðum þar sem þakið hrundi og undir því kraumi eldur. Því var grabbi kallaður á staðinn til að rífa þakið og opna svæðið betur svo slökkviliðsmenn geti betur unnið að því að ráða niðurlögum eldsins.

„Sem betur fer hefur engan sakað,“ segir Björn aðspurður.

Um þrír fjórðu hlutar eyðilögðust

„Við erum byrjaðir að taka svolítið saman og minnka okkar viðbúnað, en hann mun felast í því að það munu vera hér 2-3 slökkvibílar að reyna að slökkva í þessum glæðum sem eru,“ sagði Birgir Finnsson aðstoðarslökkviliðsstjóri í samtali við mbl.is.

Hann segir að sá hluti húsanna sem fór verst, þar sem Griffill og Fönn voru til húsa, sé hruninn. Þar af leiðandi verði ekki farið þangað inn til að eiga við eldinn heldur að halda slökkvistarfinu áfram utanhúss. Það taki hins vegar tíma.

Aðspurður telur hann að um þrír fjórðu hlutar hússins hafi eyðilagst. „Þetta eru í rauninni fjórar álmur sem standa hér og þrír fjórðu eru farnir, þar sem Fönn er stærsti hlutinn og svo Griffill. En samt bjargaðist einn fjórði,“ segir Birgir.

Hann segist ekki vita hvenær menn geti farið inn í húsið til að rannsaka og skoða aðstæður betur, enda mikil hrunhætta. Á morgun verður athugað með burðarvirki hússins. „Örugglega eru bitarnir mjög illa farnir, þetta er alveg handónýtt. Ég held að menn séu ekkert að fara inn nema til að tryggja það einhvern veginn,“ segir Birgir.

Farið betur yfir stöðu málsins á morgun

Hann segir að á morgun verði tekin staðan varðandi þær lokanir sem tóku gildi í námunda við Skeifuna 11 vegna eldsins og þeirrar hættu sem skapaðist. „Við drögum þá úr þeim og reynum að hliðra þannig til að umferð muni ganga þokkalega fyrir sig á götunum hér í kring. Svo munum við taka stöðuna með tryggingafélögum og lögregluna varðandi rannsóknarhlutann,“ segir Birgir.

Hann bendur ennfremur á að eigendur húsanna og rekstraraðilar verði að fara yfir stöðuna hjá sér.

Einn af þeim stóru

Varðandi útbreiðsluna segir Birgir að það sé með ólíkindum hverst hratt eldurinn breiddist út. Eldstrókurinn hafi staðið upp úr þaki hússins er slökkviliðið bar að garði, en eldboðið kom frá viðvörunarkerfi fatahreinsunarinnar Fannar.

Björn Már tekur undir orð Birgis er hann er spurður um útbreiðsluna. „Þetta var ótrúlega bráður eldur.“

Eldsupptök eru ókunn á þessari stundu og fer lögregla með rannsókn málsins.

Björn Már hefur starfað sem slökkviiðsmaður í 34 ár. Aðspurður segir hann eldsvoðann í Skeifunni vera „einn af þeim stóru“.

„Þetta er með þeim stærri frá '89,“ segir Björn Már sem stendur vaktina í alla nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert