„Það er ekkert óeðlilegt í kjölfar svona áfalls að menn skoði hvaða möguleikar eru í stöðunni,“ segir Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, en heimild er fyrir byggingu allt að 500 íbúða í Skeifunni í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.
Ólöf segir ekki ljóst hvað áætlað sé að verði um húsið í Skeifunni 11 samkvæmt aðalskipulagi, enda snúi það einungis að stærri svæðum sem heild. Deiliskipulag sé hins vegar notað þegar skoðaðar eru einstaka lóðir og afmarkaðri svæði. Hún segir þó ljóst að möguleikinn á íbúðabyggð sé inni í myndinni þegar kemur að gerð nýs deiliskipulags.
„Ef óskað væri eftir því að við byggjum til deiliskipulag yrði það byggt á aðalskipulagi. Nýlundan í því er sú að nú má hafa þarna íbúðir, sem ekki mátti fyrir samþykkt aðalskipulagsins. Það er því ákveðinn hvati fyrir uppbyggingu á svæðinu,“ segir Ólöf.
Verkefnið Hæg breytileg átt hefur undanfarið verið rekið í samstarfi borgarinnar, ríkis og fleiri aðila, en þar hafa einstaklingar úr ýmsum áttum unnið í hópum við að skoða mögulegar húsagerðir framtíðarinnar í borginni.
„Nokkrir hópar voru valdir, en þeir völdu sér ákveðin svæði í borginni, skoðuðu hvernig þau gætu þróast og um hvernig íbúðir gæti verið að ræða. Einn þessara hópa valdi sér einmitt Skeifuna,“ segir Ólöf.
Í umfjöllun mbl.is um málið bentu talsmenn hópsins m.a. á það að ýmislegt vinni með Skeifunni, ekki síst sú staðreynd að hún er staðsett nokkurn veginn í landfræðilegri miðju Reykjavíkur. „Draumurinn er að þarna yrði lífleg byggð með menningarstarfsemi, kaffihúsum eða börum, og um leið væri búinn til nýr miðpunktur fyrir t.d. Langholtshverfið og Bústaðahverfið, sem væru þá komin í sömu stöðu gagnvart Skeifunni eins og Hlíðar og Vesturbær eru með gagnvart miðbænum.“
Sjá fyrri umfjöllun mbl.is: Skeifan verði hverfi með karakter
Á vefsíðu verkefnisins segir að stefnt sé að því „að formgera tillögur sem koma megi í frekari þróun og framkvæmd en meginmarkmiðið sé að út úr verkefninu komi ígrundaðar hugmyndir um íbúða- og búsetukosti sem endurspegli nýja möguleika, viðhorf og væntingar.“
Haldið var málþing í Iðnó þar sem tillögur voru ræddar, en upptöku af kynningum hópa má sjá í meðfylgjandi myndbandi.