Krónan hefði líklega gefið eftir í sumar vegna neikvæðs viðskiptajafnaðar ef ekki hefði verið fyrir jákvæðan þjónustujöfnuð vegna vaxtar í ferðaþjónustunni að sögn Magnúsar Stefánssonar, hagfræðings hjá hagfræðideild Landsbankans.
Eins og greint er frá í nýrri Hagsjá Landsbankans var þriggja milljarða króna halli á vöruskiptum við útlönd á fyrri helmingi ársins og er það í fyrsta sinn frá 2008 sem halli er á vöruskiptunum. Slök loðnuvertíð og minni álframleiðsla en í fyrra eiga þátt í þessum umskiptum.
Í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur m.a. fram, að greining Íslandsbanka reiknar með því að afgangur af þjónustujöfnuði verði um 25 milljarðar á öðrum ársfjórðungi, sem yrði met, og vegur ferðaþjónustan þar þyngst.