Hlaupvatn er komið fram í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi, samkvæmt upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Vegna þessa hefur óvissustigi verið lýst yfir, en mat vísindamanna Veðurstofu Íslands er þó að um lítið hlaup sé að ræða.
Fram kemur á vef Veðurstofunnar að síðan aðfaranótt laugardags 5. júlí hafi leiðni farið hækkandi, bæði í Jökulsá á Sólheimasandi og í Múlakvísl. Einnig hefur orðið vart við aukna brennisteinslykt sem og aukið rennsli, þá sérstaklega í Múlakvísl. Líkleg orsök er leki úr jarðhitakerfum undir Mýrdalsjökli.
„Við þessar aðstæður getur mikið magn hættulegra gastegunda orsakað ertingu í slímhúð og augum sem og tap á lyktarskyni. Í einstaka tilvikum getur þetta leitt til yfirliðs vegna súrefnisskorts. Þetta á sérstaklega við þar sem ár koma undan jöklum og því rétt að hafa varann á,“ skrifar sérfræðingur á vakt Veðurstofunnar.
Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar yrði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila
Ferðafólk er beðið um að fara að öllu með gát á svæðunum í kringum Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl vegna hættu á aukinni brennisteinsvetnismengun. Almannavarnayfirvöld fylgjast vel með framvindu mála og upplýsa frekar ef breytingar verða á ástandinu.
Smíði nýrrar brúar yfir Múlakvísl lauk fyrir aðeins nokkrum dögum, en sem kunnugt er skolaði gömlu brúnni burt þegar skyndilegt jökulhlaup kom í ána aðfaranótt 9. júlí 2011. Vegagerðarmenn reistu þá nýja bráðabirgðabrú á örfáum sólarhringum, sem hefur verið í notkun síðan.
Stefnt er að því að nýja brúin verði formlega vígð síðar í sumar, en umferð var hleypt á hana í fyrsta sinn hinn 3. júlí.