Æðarungar flytjast í Vatnsmýrina

Starfsmaður Húsdýragarðsins hvetur sína menn áfram.
Starfsmaður Húsdýragarðsins hvetur sína menn áfram. Styrmir Kári

37 stálpaðir æðarungar voru fluttir í dag úr Húsdýragarðinum í Vatnsmýrina, þar sem þeim verður sleppt. Ungarnir, sem klöktust út fyrir um mánuði, voru ræktaðir sérstaklega með það að markmiði að flytja á Tjörnina við Norræna húsið, en þetta er í fyrsta sinn síðan árið 1957 sem það er gert.

„Það var svolítið ævintýri fyrir þá að fara í þetta ferðalag og þeir voru aðeins stressaðir. En þeir brugðust annars mjög vel við nýjum aðstæðum,“ segir Snorri Sigurðsson, líffræðingur hjá Reykjavíkurborg. Ungarnir skutu gæslumönnum sínum þó skjótt skelk í bringu þegar nokkrir unganna virtust hafa gufað upp. Hópurinn hafði þá kafað undir girðingu sem komið hafði verið fyrir og þeir því líklegast fundið fyrir heimþrá. „Okkur brá aðeins við þetta en þeir skiluðu sér svo aftur. Þeir voru þá allir innan girðingarinnar og voru farnir að fara inn í kofann og éta fóðrið, þannig að þeim leist bara vel á þetta,“ segir Snorri.

Mikilvægt að efla andastofninn við Tjörnina

Að sögn Snorra er flutningur unganna mikilvægur liður í að bæta ástand varpstofna fugla við Tjörnina og í friðlandinu í Vatnsmýrinni. Hann segir að á síðustu árum hafi hallað undan fæti hjá nokkrum andastofnum og þeir verið við það að hverfa af Tjörninni. Æðarfuglinn er þar á meðal og var því ákveðið að efla stofninn með ræktun.

„Það vill stundum gleymast í umræðunni að upphaflega ástæðan fyrir því að það voru svo margar endur á Tjörninni var svona ræktun sem fór fram um miðja 20. öldina. Á 6. áratugnum voru gerðar tilraunir með alls konar andartegundir og settar margar mismunandi tegundir á Tjörnina, þar á meðal æðarfugl,“ segir Snorri. Hann segir þá ræktun vera ástæðuna fyrir fjölda anda á 8. og 9. áratugnum en síðan þá hafi þeim fækkað, vonandi þar til nú.

„Við ákváðum að byrja á æðarfuglinum vegna þess að hann þykir þægilegastur í ræktun. Það eru æðarbændur úti um allt land sem hafa mikla reynslu og þetta eru sterkbyggðar endur sem dafna yfirleitt ágætlega,“ segir Snorri, en æðarfuglinn telst til sjávaranda þó að hann spjari sig vel á ferskvatni. 

Æðarfuglinn leitar til sjávar en skilar sér vonandi til baka

Æðarfuglinn fer út á sjó og heldur sig þar að miklu leyti yfir vetrartímann. Einhver pör hafa skilað sér aftur ár eftir ár á Tjörnina í Reykjavík. Snorri segir að koma verði í ljós hvað verði um nýju fuglana. „Nú er stóra spurningin hvort þeir fatti hvað þeir eiga að gera. Þeir hafa enn sem komið er ekki verið í neinu samneyti við aðra æðarfugla en það gerist einhvern veginn af sjálfu sér. Þeir verða fleygir nú snemma í haust og ef þeir eru ekki að skila sér út á sjó þurfum við kannski eitthvað að grípa inn í. Við viljum það síður, náttúran á helst að sjá um þetta sjálf,“ segir Snorri og bætir við að fuglarnir verði fóðraðir í sumar.

Hann biðlar til þeirra sem eru áhugasamir og vilja skoða ungana að sýna aðgát og tillitssemi. „Þeir eru alveg varnarlausir fyrir mannfólki núna. Bara vinsamleg tilmæli um að fara varlega um þetta allt saman,“ segir Snorri.

Hér má sjá myndband af ungunum taka sín fyrstu skref í nýju umhverfi, en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri deildi myndbandinu á Facebook-síðu sinni.

Ungarnir skoða nýju heimkynnin.
Ungarnir skoða nýju heimkynnin. Styrmir Kári
Gæslumenn unganna komu upp girðingu sem stendur á meðan ungarnir …
Gæslumenn unganna komu upp girðingu sem stendur á meðan ungarnir venjast nýju svæði. Þá verður hún tekin niður. Styrmir Kári
Snorri segir að ungarnir hafi verið sáttir með nýtt heimili.
Snorri segir að ungarnir hafi verið sáttir með nýtt heimili. Styrmir Kári
Komið var upp góðri aðstöðu fyrir fuglana í Vatnsmýrinni.
Komið var upp góðri aðstöðu fyrir fuglana í Vatnsmýrinni. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert