Vinnubrögð stjórnvalda vegna fyrirhugaðra flutninga Fiskistofu, frá Hafnarfirði til Akureyrar, eru ekki í anda vandaðrar stjórnsýslu, að mati Félags stjórnsýslufræðinga.
Í ályktun félagsins segir að ítarlegan rökstuðning fyrir ákvörðuninni skorti og að ekki hafi farið fram faglegt mat á áhrifum flutninganna.
„Afar brýnt er að kostnaðar- og ábatagreining liggi fyrir áður en ráðist er í jafnviðamikla aðgerð og mikilvægt er að hafa samráð við helstu hagsmunaaðila, þ.á.m. starfsmenn. Koma þarf í veg fyrir að sú fagþekking og reynsla sem byggst hefur upp í áratugi glatist og hafi þannig neikvæð áhrif á gæði og tilgang starfseminnar,“ segir í ályktun félagsins.
„Þó svo að endanleg ákvörðun um flutning sé pólitísk þá ber ráðherra sem æðsta embættismanni síns málaflokks að fara eftir rannsóknarreglu, byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum forsendum og hagsmunum heildarinnar.“
Félagið hvetur stjórnvöld til að viðhafa fagleg vinnubrögð í allri sinni ákvarðanatöku.