Aðstæður á vinsælli leið yfir hálendið sagðar skelfilegar

Á Kjalvegi. Horft suður frá Innri-Skúta. Bláfell í Suðri.
Á Kjalvegi. Horft suður frá Innri-Skúta. Bláfell í Suðri. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

„Ástandið er í raun hreint út sagt skelfilegt og þá sérstaklega norðanmegin þar sem ekkert mál er að hefla,“ segir Haraldur Teitsson, framkvæmdastjóri Teits Jónassonar ehf., um ástand vegarins yfir Kjöl.

Verst mun vera leiðin frá Blöndulóni og upp að Seyðisá en ástandið á veginum um Bláfellsháls er hins vegar sagt gott.

Nýbúið er að opna veginn yfir Sprengisand og segir Haraldur fyrirtæki hans þegar hafa sent tvo bíla þar í gegn. Spurður hvort sá vegur sé einnig erfiður yfirferðar kveður Haraldur já við. „Það er mikil drulla í honum og vegurinn er bara vondur eins og alltaf. Það var svo sem alveg vitað að Vegagerðin ætlaði ekki að gera mikið þar en þeir lofuðu hins vegar öllu fögru með Kjöl. Það hefur þó ekki skilað sér sem skyldi.“

Mikið álag á tækjabúnað

Rútur Teits Jónassonar sem farið hafa um Kjalveg að undanförnu hafa heldur betur fengið að finna fyrir því að sögn Haraldar. Hafa gúmmífóðringar gefið sig, demparar og fjaðrir brotnað, rúður og dekk sprungið auk þess sem kerra skemmdist nýverið eftir ferðalag um Kjalveg.

„Í fyrra var þetta sérstaklega slæmt og tjónið gríðarlegt hjá okkur. Núna er ég bara búinn að skemma eina kerru sem ég veit um. Við sinnum öllu viðhaldi mjög vel og skiptum um allt sem þarf að endurnýja en hlutir sem eiga að duga 80.000 ekna kílómetra rétt lifa sumarið,“ segir Haraldur. Tjón á rútum og öðrum tækjabúnaði fyrirtækisins vegna aksturs um hálendisvegi landsins nam um 2,5 milljónum króna í fyrra.

Mikið vatnsrennsli við Öskju

Rúturnar hjá Mývatn Tours aka frá Mývatni að Öskju, eftir Öskjuleið. Gísli Rafn Jónsson rekur fyrirtækið og segir hann leiðina þokkalega enda fremur stutt síðan hún var hefluð. „Það vantar þó enn tvo kílómetra upp á að hægt sé að komast að bílastæðinu við Öskju fyrir snjó.“

Að sögn Gísla Rafns er mjög mikið vatnsrennsli á veginum ofan Drekagils. „Þar er þetta fremur háskalegt enda getur getur vatnið sem flæðir eftir veginum verið allt að 40 sentimetrar á dýpt,“ segir hann.

Styttist í nýtt malarslitlag

Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á suðursvæði, segir nú fljótlega standa til að leggja nýtt malarslitlag á þann vegarkafla á Kjalvegi sem liggur frá Blöndulóni og upp að Seyðisá.

„Það verður borið í veginn að mér skilst fljótlega í sumar. Það er nýbúið að opna veginn og þá var hann heflaður [sunnanmegin] alveg inn að Hveravöllum,“ segir Svanur og bætir við að vegurinn muni skána mjög eftir að búið er að bera í hann slitlag. „Ég fór þarna í fyrra og vegurinn er mjög grófur yfirferðar en hann mun lagast mikið þegar búið er að setja þetta yfir hann.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert