Skemmdin snúist í höndum vargsins

Húsið að Aðalstræti 16 í Bolungarvík er mjög illa farið
Húsið að Aðalstræti 16 í Bolungarvík er mjög illa farið Af vef Bæjarins besta

Bæjarráð Bolungarvíkur „fordæmir þau forkastanlegu eignaspjöll sem unnin voru á vernduðu húsi við Aðalstræti 16,“ samkvæmt fundargerð, en hið skemmda hús var tekið til umfjöllunar á fundi í gærkvöldi. Bæjarfélagið mun kæra verknaðinn til lögreglu og gera skaðabótakröfu vegna tjónsins.

„Hann vildi húsið burt,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, staðgengill bæjarstjóra í Bolungarvík, aðspurð um hvað hafi gengið skemmdarvarginum til, í samtali við mbl.is í dag. „Það hafa verið skoðanaskipti um hvað eigi að gera við þetta hús en ég hefði haldið að enginn væri svona ákafur.

Ef maðurinn er á móti húsinu hefur það aldeilis snúist í höndunum á honum. Hann hefur vakið þá til umhugsunar sem enga skoðun höfðu á þessu og það er frekar á þann veginn að nú vill fólk byggja húsið upp.“

Skiptar skoðanir um framtíð hússins

„Á sínum tíma var óskað eftir heimild til að rífa eða flytja húsið, þar sem það skagar út í aðalgötu bæjarins, en minjastofnun lagðist gegn því að það yrði rifið,“ sagði Baldur Smári Einarsson, formaður bæjarráðs, í samtali við mbl.is í dag.

Skemmdarverkin bera með sér ákveðna sundurþykkju um varðveislu hússins. „Þeir sem vilja húsið burt segja að það sé fúið og niðurnítt og að það þrengi að götunni sem það stendur við, aðalgötu bæjarins. Hinsvegar segja þeir sem vilja varðveita húsið að það búi yfir mikilli sögu, það sé vel hægt að gera það upp og að gatan sé alveg nógu breið.“

Hugmyndir um að flytja húsið innar á lóðina, fjær götunni, hafa verið til umræðu hjá bæjaryfirvöldum í Bolungarvík, en leyfi til þess hafði fengist frá Minjastofnun. Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að bæjaryfirvöld hafa á undanförnum mánuðum lagt mikla vinnu og fjármuni í að deiliskipuleggja svæðið sem húsið stendur á, meðal annars með það að leiðarljósi að skipa því þann sess sem saga þess og verndun heimta.

„Það var ákveðið að gera ekkert þangað til deiliskipulag yrði lagt fram,“ segir Baldur.

Sjá frétt mbl.is: Hringdi og lýsti yfir ábyrgð

Aðalstræti 16 í Bolungarvík
Aðalstræti 16 í Bolungarvík Af vef Bæjarins besta
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert