Annar á slysadeild en hinn í fangaklefa

Slagsmál tveggja grænlenskra sjómanna í Reykjavík í nótt enduðu með því að annar þeirra var fluttur á slysadeild en hinn í fangaklefa. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um ellefuleytið var ökumaður stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Við leit á honum kom í ljós að hann var með eitthvað af fíkniefnum en hann var síðan látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

Á tíunda tímanum var stúlka sem hafði dottið í tröppum á bar í miðborginni flutt á slysadeild með sjúkrabifreið. Skoðun leiddi í ljós að um minniháttar meiðsl var að ræða.

Lögreglan setti einn í fangaklefa um miðnættið þar sem hann lét öllum illum látum í porti lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var handtekinn og dúsir í fangaklefa þar til rennur af honum.

Lögreglan stöðvaði för ökumanns í Ánanaustum um miðnætti en hann hafði ekið mjög glannalega. Tekin var skýrsla af honum og hann látinn laus að því loknu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert