Ljósmyndarinn Gísli Hjálmar Svendsen fór sérstaka og áhrifaríka leið þegar hann vann lokaverkefni sitt í Ljósmyndaskólanum. Með heimildarljósmyndun varpar hann einstöku ljósi á líf þeirra sem eru utangarðs í samfélaginu. Þeim sem hvergi eiga höfði sínu að halla hefur ekki aðeins verið úthýst úr samfélaginu heldur líka úr fjölskyldum og af þeim napra veruleika bregður Gísli upp mynd.
Veruleiki og heimur hinna heimilislausu er mörgum algjörlega ókunnur og gera fæstir sér grein fyrir því hversu margir eru utangarðs í okkar eigin samfélagi. Af hverju sú vitneskja er á höndum fárra er ekki gott að segja en ljóst er að hluti vandans stafar af því að augu okkar geta verið lokuð fyrir því sem er óþægilegt, vandræðalegt og erfitt.
Gísli Hjálmar Svendsen útskrifaðist úr Ljósmyndaskólanum í febrúar síðastliðnum og hefur útskriftarverkefni hans, Utangarðmenn, fengið mikla athygli. Gísli byrjaði að mynda utangarðsfólk árið 2006 en þegar hann hóf nám árið 2011 ákvað hann að sinna þeirri köllun sem hann hafði orðið fyrir og fór að mynda þennan sérstaka hóp fólks af fullum þunga.
Mikil vinna er að baki, enda tók það sinn tíma að ávinna sér traust fólksins og varði Gísli miklum tíma með því. Hann var með því heilu og hálfu dagana, jafnvel heilu næturnar, og tók aldrei myndir nema með fullu samþykki fólksins.
Athyglin sem myndir Gísla hafa vakið, bæði á sýningu útskriftarnema og á vefsíðu Ljósmyndaskólans, segir okkur að myndefnið sé áhugavert og sömuleiðis að á myndunum sjáist eitthvað sem fólk þekki ekki, veiti sýn inn í „hið forboðna“ sem fólk er forvitið um. Falið vandamál í nærumhverfinu. Eða „fílinn í stofunni“ eins og Gísli orðar það, og sjálfur þekkir Gísli til þess vandamáls.
„Allt mitt líf hefur þessi heimur verið hluti af veruleika mínum. Mín eigin reynsla er helsti hvatinn að því að leyfa fólki að fá smjörþefinn af lífi utangarðsfólks. Uppeldisbróðir minn svipti sig lífi í fangelsinu við Hverfisgötu eftir að hann var tekinn í eitt skipti af mörgum. Úrræðin voru engin og það var hans lausn að hengja sig þar. Annar maður nátengdur mér, frændi minn, fannst með dæluna í handleggnum. Það var komið að honum þannig, látnum, fyrir tveimur árum,“ segir Gísli. Þessi reynsla knúði hann áfram. Hann langaði til að sýna hvernig lífi utangarðsfólks er háttað.
„Ég vildi sýna hvernig þetta líf er í raun og veru en ekki eins og sagt er að það sé. Þetta er ekki eins og sú mynd sem dregin hefur verið upp af róna sem situr á rúmstokki með matarpoka frá Bónus af því að einhver gaf þúsundkall. Heimurinn er ekki þannig. Hann er grafalvarlegur og brútal. Þetta er óvæginn og hræðilegur heimur. Og þangað leiðist fólk af því að það hefur engin önnur ráð. Á meðan við erum með meðferðarkerfi eins og Vog er þetta þannig að fólk er sett á biðlista sem miðast við það hversu oft það er búið að fara í meðferð. Það er ekki horft á hverjar aðstæður fólks eru nema í einstaka tilvikum þegar fólk er með börn eða eitthvað í þá veru. Þegar kemur að þessum klassísku rónum sem vilja komast inn, eru orðnir þreyttir og búnir að fá nóg, er ekki hægt að komast inn og þeir þurfa að bíða í þrjá mánuði,“ útskýrir Gísli.
Á þeim þremur mánuðum getur margt gerst. Sumir láta lífið vegna sjúkdómsins og fíknin getur líka leitt menn út í alvarleg afbrot af ýmsu tagi.
Frá því að Gísli hóf þetta verkefni, árið 2011, hefur margt utangarðsfólk látið lífið. „Það eru fallnir frá að minnsta kosti fimm einstaklingar sem ég kynntist persónulega í gegnum verkefnið,“ segir hann en þá eru ekki taldir með ættingjar hans tveir sem létu lífið á sama tímabili. Það segir okkur að talan getur sannarlega verið mun hærri. Á bak við tölurnar er fólk og á bak við fólkið eru fjölskyldur.
Eins og Gísli þekkir sjálfur getur verið þyngra en tárum taki að eiga ættingja sem er bæði fíkill og illa haldinn af andlegum veikindum. Í sumum tilfellum eru fjölskyldurnar helsjúkar og afneita vandanum að sögn Gísla.
„Það er þetta með fílinn í stofunni sem allir sjá og vita af en það má enginn tala um hann.“ Það getur verið erfitt að fela fílinn en margar fjölskyldur fíkla reyna það eftir sem áður.
Á næstu mánuðum kemur út bókin Óminni hversdagsleikans, sem er með myndum Gísla af útigangsfólki og texta sem segir söguna á bak við myndirnar. „Ég hef tekið gríðarlegt magn af vídeóefni og ég á allar samræðurnar, birtingarhæfar og óbirtingarhæfar. Ekki man ég hversu mörg þúsund mynda ég á af þessu umhverfi og fólkinu,“ segir Gísli, en allar þær tilvitnanir sem eru notaðar í bókinni á hann til á myndskeiðum, sem eru aðalheimildin fyrir oft átakanlegum texta bókarinnar.
Til dæmis þar sem útigangskona lýsir skelfilegri reynslu þar sem þrír karlmenn halda henni fastri og nauðga henni. Hún sagði að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem hún hefði orðið fyrir slíku grimmilegu kynferðisofbeldi.
„Þetta er óhugnanlega algengt í þessum aðstæðum. Geturðu ímyndað þér konu sem upplifir þetta og er líka í fangelsi sjúkdómsins með einhver skilyrt úrræði fyrir meðferð? Hvernig það er að lifa svona?“
Það er ljóst að fáir geta sett sig í þau spor en Gísli er sannfærður um að hægt sé að skilja stöðu utangarðsfólks enn betur og þar af leiðandi megi leita leiða til að taka á vanda þessa hóps fólks. Bókin er áhrifarík og skiptir samspil texta og mynda þar miklu.
„Textinn í bókinni gefur myndunum aukið vægi því hann tengir lesandann við þetta sjónræna,“ segir Gísli, sem vill alls ekki að ljósmyndarinn sjálfur sé aðalatriðið í þessari frásögn heldur fólkið og sagan sem það segir í textanum sem fylgir myndunum. Gísli er sögumaðurinn en ekki höfundur sögunnar, ef svo má segja, og það vill hann að komi fram. Þessa sögu þarf að segja og ef ein mynd segir meira en þúsund orð er bókin býsna mikilvæg heilmild um líf þeirra sem eru utangarðs í íslensku samfélagi. Það verður sannarlega áhugavert að fylgjast með viðbrögðum þegar bókin kemur út, sem vonandi verður í haust.
Fleiri myndir úr verkefni Gísla Hjálmars Svendsen ljósmyndara má sjá á vef Ljósmyndaskólans.