Engin sjáanleg aukning hefur verið á bjórsölu á Íslandi frá 12. júní þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu hófst. Bjórsala er orðin það mikil að jafnvel þrátt fyrir að margir knattspyrnuáhugamenn sötri nokkra bjóra yfir hverjum einasta leik, á nánast hverjum einasta degi í mánuð, mælist það ekki. Nema þá að Íslendingar drekki heldur aðra drykki en bjór á meðan glápt er á fótboltann.
„Það er engin sjáanleg aukning. Frá 12. júní er aukning í bjórsölu upp á 3% en þegar maður skoðar síðustu sex mánuði er meðaltalið 3,8%. Stutta svarið er því að það stendur ekkert upp úr í sölutölum sem rekja má til HM,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.
Í tengslum við heimsmeistaramótið hafa starfsmenn fjölmargra vinnustaða tekið sig saman, veðjað á úrslit leikja eða á hvaða þjóð standi uppi sem sigurvegari. Gegnumgangandi hefur fyrirkomulagið verið þannig að sigurlaunin samanstanda af kippu af bjór - eða vínflösku - frá því þjóðlandi sem lotið hefur í gras í keppninni. Má því ætla að bjór- eða vínsala á tegundum frá þeim löndum sem falla úr keppni rjúki upp daginn eftir tapleikinn.
Sigrún Ósk segir hins vegar að bjórsala á Íslandi sé í raun svo mikil að jafnvel þó sala aukist gríðarlega á einhverjum ákveðnum degi, þá sjáist það varla þegar á stóru myndina er litið. Og ef litið sé til stórmóta í íþróttum á undanförnum árum finnist ekki fylgni við aukna bjórsölu.
„Það er í raun og veru okkar reynsla. Við erum ekki að sjá nein afgerandi áhrif varðandi fylgni við íþróttaviðburði og sérstaklega ekki í svona langan tíma. En við gætum kannski séð fylgni ef að þetta væri einn alveg risadagur eða eitthvað svoleiðis,“ segir Sigrún Ósk.