„Ástæðan fyrir því að menn fara þá leið að gera bráðabirgðasamkomulag er fyrst og fremst til að fá svigrúm til að finna varanlega lausn,“ segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, en ráðherra hefur staðfest samning stofnunarinnar við Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu um sjúkraflutninga.
Samkomulagi sem skrifað var undir gildir frá 1. júlí á þessu ári til 31. mars á næsta ári. Með þessu geta aðilar notað það sem eftir lifir árs til þess að finna varanlega lausn að mati Steingríms. „Því er þá haldið opnu að sú lausn gæti leitt til þess að annar aðili fái þjónustuna og það sé þá hægt að yfirfæra hana til nýs aðila með góðum fyrirvara.“
Að mati Steingríms fer ekki á milli mála að það sé vilji aðila að það finnist langtímalausn. Samkomulagið sem náðist var innan fjárheimilda heilbrigðisráðherra á þessu ári. „Báðir aðilar voru þreyttir á þessu ástandi sem hefur ríkt og því tilbúnir að leggja sitt af mörkum til þess að samkomulag náðist.“
„Þótt slökkviliðið geri sér áfram vonir um að fá flutningana, þá gera þeir sér alveg grein fyrir því að sá möguleiki sé fyrir hendi að það sé farsælast að aðrir aðilar taki við þeim,“ segir Steingrímur.
Sjá frétt mbl.is: Samið um sjúkraflutninga