„Það er ekki hægt að ímynda sér Þingvelli án Þingvallabæjarins,“ sagði Pétur Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands.
„Þetta hús er veigamikill þáttur í þeirri mynd sem þjóðin gerir sér af Þingvöllum.“ Nú stendur til að friðlýsa Þingvallabæinn sem var byggður í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsið sem prestsbústað. „Þetta er sennilega kunnasta og merkasta dæmið um tilraunir Guðjóns Samúelssonar til að endurskapa anda og fegurð íslenska torfbæjarins,“ sagði Pétur.