Ætli nokkur staður á Íslandi hæfi jafnvel fyrir giftingar og helgistaðurinn við Öxará? „Skundum á Þingvöll og treystum vor heit“ er sungið og í bakgrunni heyrist taktfastur trumbusláttur. Og í þessu endurspeglast kannski kjarni hjónavígslna og þeirra skuldbindinga sem þar liggja að baki. Hjónaleysin heita hvort öðru traustri fylgd til framtíðar, enda hafa þau fundið sama taktinn sín í millum. Þetta er ekki flókið.
Þau Nataasha Helen Svan og Nigel John Hand frá Wolverhampton á Mið-Englandi, sem hingað komu með skemmtiferðaskipi síðastliðinn þriðjudag, nýttu þá nokkurra klukkustunda viðdvöl hér til að láta pússa sig saman. Fóru austur á Þingvöll, sem segja má að sé heitur reitur hamingjunnar.
„Yfir sumarið er þetta ein til tvær hjónavígslur á viku í kirkjunni og svo bætast við skírnir og fermingar. Síðan borgaralegar athafnir sem sýslumaður eða fulltrúi hans annast. Oft á Hakinu eða annars staðar utandyra. Þá eru hér einnig athafnir á vegum annarra trúfélaga, svo sem Ásatrúarfélagsins, gjarnan við Öxarárfoss. Við getum skotið á að þetta séu kannski þrjátíu eða fjörutíu hjónavígslur á ári,“ segir Guðrún Kristinsdóttir, yfirlandvörður á Þingvöllum.
Það sem af er þessu ári hefur sýslumaðurinn á Selfossi gefið saman fern brúðhjón á Þingvöllum, en þau voru 23 í fyrra.
Þingvellir eru innan sóknarmarka sr. Egils Hallgrímssonar, sóknarprests í Skálholti. Hann segist gefa þar saman átta til tíu brúðjón á ári hverju. Skálholtskirkja njóti sannarlega vinsælda, en í júlí, sem er vinsælasti brúðkaupsmánuðurinn, sé hún oft teppt vegna tónleikahalds. Í fjölda athafna hafi Þingvellir því vinninginn en það færist þó í vöxt að fólk láti gefa sig saman á óvenjulegum stöðum, svo sem uppi á jöklum, við fallega fossa og svo framvegis.
Guðrún Kristinsdóttir telur ástæður þess að fólk velur Þingvelli fyrir persónulegar athafnir margvíslegar. Oft er um að ræða erlenda ferðamenn, fólk sem er fangið af helgi og fegurð staðarins. Sama máli gegni um Íslendinga; fólk sem ef til vill hefur búið lengi erlendis og hefur í sumum tilvikum ekki mikil tengsl við einstakar kirkjur á Íslandi og því verði Þingvellir fyrir valinu.