„Ég hef aldrei skilið þegar menn bölva þokunni. Hún snarbreytir landslaginu og er ein af kennileitum Íslands sem vantar að nýta,“ segir Ívar Ingimarsson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu. Ívar fer nú fyrir hópi áhugamanna sem vilja stofna Þokusetur á Stöðvarfirði í gömlu félagsheimili, en hópurinn fékk nýverið styrk úr Vaxtarsamningi Austurlands til þess að koma verkefninu á legg.
Hópurinn vill efla ferðaþjónustu á Austurlandi og kynna betur það sem svæðið hefur upp á að bjóða. Ívar segir að þokan dragi að ferðamenn, bæði Íslendinga og erlenda, og gæti virkað sem segull á svæðið. „Við erum að hugsa þetta í tengslum við gamalt félagsheimili á Stöðvarfirði. Hús sem er eitt af elstu húsunum í bænum og er í niðurníðslu. Við ætlum að gera flott myndband sem sýnir Austurland og Austfirði og auðvitað þokuna. Auk þess verðum við með alls konar upplýsingar og skemmtilegar sögur, veitingasölu og kaffihús,“ segir Ívar.
„Þokan breytir náttúrulega landslaginu alveg ótrúlega. Það er alveg magnað að vera úti á fjörðum þegar þokan er að skríða inn. Einn fjörðurinn getur verið þakinn rjómaþoku, má eiginlega segja, og þú sérð fjallstindana rétt standa upp úr, á meðan næsti fjörður getur verið baðaður sólskini,“ segir Ívar.
Hann telur að þokan hafi aðdráttarafl ekki síður en norðurljósin. „Þokan er sérkenni fyrir þetta svæði sem auðvelt er að nýta í markaðssetningu.“
Hópurinn hyggst leggja göngustíga á öllum Austfjörðum þar sem hægt verður að skoða þokuna í nálægð. „Þetta verða göngustígar tengdir þokunni þar sem í rauninni verður hægt að ganga skýjum ofar. Við enda hvers stígs verður vefmyndavél sem vísar á eitthvað fallegt kennileiti, en í Þokusetrinu verða síðan öll kennileitin sýnd á sjónvarpsskjám. Þá geturðu í raun haft alla firðina á einum stað og séð hvernig þokan hreyfist í því sem kallað er timelapse,“ útskýrir Ívar.
Ívar gerir ráð fyrir því að grunnvinna við setrið verði unnin í vetur og vonar að opnað verði í byrjun næsta árs. „Það fer alveg eftir því hvernig gengur að fjármagna þetta. Það gæti alveg verið að þetta vinnist í einhverjum áföngum, til dæmis að við leggjum þokustígana fyrst. Þetta verður að koma í ljós,“ segir Ívar.
Hægt er að fylgjast nánar með Þokusetrinu á Facebook-síðu setursins.