„Njóta ekki þeirra forréttinda að geta flúið“

Magnea Marinósdóttir, sem starfar fyrir kvenréttinda- og friðarsamtökin Kvinna till kvinna í Jerúsalem segir ástandið mjög slæmt í Palesetínu og Ísrael. Hún kom heim til Íslands fyrir nokkrum dögum en var úti þegar Ísraelar hófu árásir á Gaza-strönd. Hún segir íbúa Gaza búa við það að njóta ekki þeirra forréttinda að geta flúið líkt og flestir aðrir í heiminum.

Vísar hún þar til þess að einu landamæri Gaza, sem ekki liggja að Ísrael, eru um Rafah landamærastöðina sem hefur verið meira og minna lokuð eftir að herinn tók völdin í Egyptalandi.

Að sögn Magneu vinna samtökin Kvinna till kvinna með ísraelskum og palestínskum kvenréttinda- og friðarsamtökum, sem starfa á Vesturbakkanum, á Gaza og í Ísrael. Hún segist hafa heyrt í einni samstarfskonu sinni sem býr rétt hjá Betlehem og hún hafi ákveðað flytja tímabundið með fjölskyldu sína til foreldra sinna þar sem hún óttaðist um öryggi sitt og fjölskyldunnar vegna nálægðar heimilis síns við landtökubyggð en landtökubyggðirnar eru skotmörk Hamas á Vesturbakkanum. Sú kona hafi ekki áður upplifað jafn mikið óöryggi á þessum slóðum en síðast brutust út átök milli Ísraela og Palestínumanna á Gaza í nóvember 2012.

Um fjögur þúsund íbúar á Gaza hafa flúið á náðir Sameinuðu þjóðanna og halda til í húsnæði á vegum SÞ á Gaza sem eru griðasvæði. Að sögn Magneu fá íbúar send sms skilaboð í síma auk þess sem að miðum er dreift úr lofti um yfirvofandi árásir af hálfu Ísraelshers en fólkið getur ekki leitað annað en á slík griðasvæði því landamærin eru lokuð. 

Þeir einu sem geta farið yfir landamæri Gaza og Ísrael um Erez landamærastöðina sem skilur að Gaza og Ísrael eru þeir sem eru með tvöfaldan ríkisborgararétt. Aðrir verða að reyna að leita skjóls á Gaza en það verður sífellt erfiðara. „Það eru engin neyðarskýli né loftvarnarbyrgði, það er enginn staður sem þau geta beinlínis flúið á og því fer fólk ekki þrátt fyrir að hafa fengið sent sms í síma sinn,“ segir Magnea sem fer aftur til Jerúsalem um miðjan ágúst.

Hún segir að í Ísrael fari loftvarnaflautur í gang þegar árás er yfirvofandi en slíku sé ekki fyrir að fara á Gaza. Þar eru heldur ekki loftvarnarbyrgi líkt og eru alls staðar í Ísrael. Að sögn Magneu eru almennir borgarar í Ísrael einnig óttaslegnir og hafa margir íbúar í Jerúsalem og Tel Aviv þurft að halda til í loftvarnarbyrgjum.

Ekkert bendir til þess að ísraelsk stjórnvöld né Hamas ætli að láta undan alþjóðlegum þrýstingi um að koma á vopnahléi á ný. 

Alls hafa 166 Palestínumenn, flestir almennir borgarar, látist í árásum Ísraela frá því á þriðjudag og yfir eitt þúsund eru særðir. Enginn hefur látist í árásum Hamas á Ísrael og segir Magnea að það líti út fyrir að tilgangurinn sé ekki að valda mannfalli heldur að koma á framfæri pólitískum skilaboðum þar sem handtöku á um 700 Palestínumönnum í kjölfar þess að þremur unglingum var rænt á Vesturbakkanum er andmælt. Eins vilja þeir að herkvínni og innilokun íbúa á Gaza ljúki og aðgerðir ísraelskra stjórnvalda á Vesturbakkanum sem lúta m.a. að eyðileggingu palestínskra heimila og byggingu landnemabyggða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert