Sækja slasaðan göngumann

Frá Jökulfjörðum
Frá Jökulfjörðum mbl.is/Árni Sæberg

Björgunarsveitir á Vestfjörðum hafa verið kallaðar út vegna slasaðs göngumanns í Hesteyrarfirði.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is er talið að göngumaðurinn sé með höfuðáverka og beinbrotinn en það fékkst ekki staðfest hjá upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins.

Tilkynning frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg sett inn klukkan 14:35

„Björgunarsveitir frá Hnífsdal, Bolungarvík og Ísafirði hafa verið kallaðar út eftir að tilkynning barst um slasaðan göngumann á gönguleiðinni milli Hesteyrar og Hlöðuvíkur. Ferðalangur gekk fram á manninn, sem var meðvitundarlítill og illa búinn, og fór á Hesteyri eftir aðstoð.

Um hálftíma mun taka fyrir björgunarsveitir að sigla inn í botn Hestfjarðar og annað eins að ganga á slysstað. Landvörður á Hesteyri er farinn af stað og þyrla LHG sem var í Vestmannaeyjum hefur verið kölluð út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert