Það er iðulega eitthvað forvitnilegt að finna í Ársriti Skógræktar ríkisins. Nú er komið út rit fyrir árið 2013 og var greint frá því á vef Skógræktarinnar fyrir helgi að þar sé meðal annars að finna grein um möguleikann á skógarvexti á hálendi Íslands.
Samkvæmt spálíkönum er sá möguleiki fyrir hendi ef meðalhiti sumars hækkar um 1°C, segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Greinina skrifa þeir Björn Traustason, Bjarki Þór Kjartansson og Þorbergur Hjalti Jónsson og rekja þeir hvernig þróun gróðurfars á landinu gæti orðið sé miðað við spár sem gerðar hafa verið um hlýnun á næstu áratugum og öldum.