Hugnast vel íbúðarbyggð í Skeifunni

Stórvirk vinnutæki rifu niður húsnæðið sem áður hýsti verslun Griffils …
Stórvirk vinnutæki rifu niður húsnæðið sem áður hýsti verslun Griffils í gærmorgun. Stór hluti húsnæðisins er gjörónýtur eftir stórbrunann. mbl.is/Ómar

Samþykkt hefur verið að setja á stofn undirbúningshóp, undir stjórn fulltrúa Reykjavíkurborgar, til að skoða uppbyggingu og framtíð lóðanna við Skeifuna 11. Guðjón Auðunsson, forstjóri fasteignafélagsins Reita, sem á umtalsverðan hlut í lóðunum, segir að félaginu hugnist vel að í Skeifunni rísi þétt blönduð byggð, þ.e. blanda af íbúðarbyggð og verslun.

Næsta skref er hins vegar að bíða eftir endanlegu mati tryggingafélaganna á þeim skemmdum og tjóni sem urðu í stórbrunanum í Skeifunni fyrir rúmri viku.

Reykjavíkurborg boðaði til fundar með eigendum lóðanna um framtíð reitsins í morgun. Guðjón segir að fulltrúi sinn hafi sótt fundinn fyrir hönd Reita. „Fundurinn fór bara mjög vel fram og var tónninn góður í mönnum. Til hans var boðað að frumkvæði Reykjavíkurborgar, sem er ákveðinn samnefnari í málinu, og erum við mjög sátt við að borgin hafi gert það. Það eru margir eigendur að þessum húsum og vaknar sú spurning hvort líta eigi á svæðið sem eitt hús og eina lóð eða mörg hús og margar lóðir. Við hjá Reitum viljum horfa á þetta sem eitt svæði til uppbyggingar,“ segir hann.

Aðalskipulag gerir ráð fyrir íbúðarbyggð

Stór hluti húsanna er gjörónýtur eftir stórbrunann og hefur í kjölfarið vaknað umræða um framtíðaruppbyggingu svæðisins. Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar til ársins 2030 gefur til dæmis heimild fyrir byggingu allt að 500 íbúða í Skeifunni.

Guðjón bendir á að hingað til hafi sjaldan verið litið á framtíðarskipulagið í Skeifunni sem „einhverja heilaga endastöð. En nú standa menn kannski frammi fyrir því að þurfa að hugsa málið með þeim hætti,“ nefnir hann.

Hann ítrekar jafnframt að félagið sé áhugasamt um þróun svæðisins og muni taka af fullum krafti þátt í uppbyggingu þess til framtíðar.

Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, hefur sagt að möguleikinn á íbúðarbyggð sé vissulega fyrir hendi á svæðinu þegar kemur að gerð nýs deiliskipulags. Í samtali við mbl.is benti hún á að aðalskipulag sneri einungis að stærri svæðum sem heild, en ekki einstökum húsum, eins og í Skeifunni 11, þar sem bruninn varð. Hins vegar væri deiliskipulag notað þegar skoðaðar væru einstaka lóðir og afmarkaðri svæði.

„Ef óskað væri eft­ir því að við byggj­um til deili­skipu­lag yrði það byggt á aðal­skipu­lagi. Ný­lund­an í því er sú að nú má hafa þarna íbúðir, sem ekki mátti fyr­ir samþykkt aðal­skipu­lags­ins. Það er því ákveðinn hvati fyr­ir upp­bygg­ingu á svæðinu,“ sagði Ólöf.

Guðjón Auðunsson, forstjóri fasteignafélagsins Reita.
Guðjón Auðunsson, forstjóri fasteignafélagsins Reita. mbl.is/Sigurgeir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert