„Þær bara drukkna“

Nýuppteknar kartöflur.
Nýuppteknar kartöflur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Kartöflubændur tóku nýverið upp fyrstu uppskeru sumarsins eins og fjallað var um í frétt mbl.is. Kartöflubændur sáu fram á góða uppskeru í upphafi sumars enda hefur lofthiti verið hagstæður. Óskar Kristinsson, kartöflubóndi á Hellu, segir að mikil væta sé aðaláhyggjuefnið um þessar mundir.

Eins og kunnugt er hefur rignt mikið í sumar og segir Óskar að væta sé nú þegar byrjuð að skemma. „Það er byrjað að skemmast sumstaðar í görðum, vegna bleytu. Þær bara drukkna,“ segir Óskar.

Hann minnir á að árið 2009 hafi uppskera verið ágæt en síðan hafi komið frost í lok júlí og þá hafi uppskeran eyðilagst, því séu kartöflubændur ekki sloppnir. Sjá frétt mbl.is um málið.

„Maður veit ekki hvað verður ef það heldur áfram að rigna svona,“ segir Óskar sem vonast til að sjá til sólar næstu daga.

Óskar er ekki sá eini sem saknar sólarinnar heldur segir Kristján Gestsson, bóndi í Villingaholti, að hægt hafi á sprettu síðustu daga vegna rigninga. „Það vantar bara meiri sól núna,“ segir hann.

Kristján lætur þó vætuna ekki á sig fá og segir: „Við kartöflubændur erum enn bjartsýnir á að þetta verði góð uppskera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert