Umfjöllun út frá einum landshluta

Magnfríður Ólöf Pétursdóttir - Magnfríði gremst hve litla fjölmiðlaumfjöllun sólin …
Magnfríður Ólöf Pétursdóttir - Magnfríði gremst hve litla fjölmiðlaumfjöllun sólin fær austanlands í samanburði við regnið í Reykjavík. Gunnar Gunnarsson / Austurfrétt

Ferðaþjónustufólk segir fullyrðingar fjölmiðla um vætutíð og vont sumar draga úr ferðum Íslendinga innanlands. Stöðugt þurfi að vera á varðbergi til að koma á framfæri upplýsingum að sólin skíni annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Svo segir í frétt á vef Austurfréttar, sem greindi frá málinu í gær.

„Mér gremst hvað er alhæft í þessum efnum. Ég stend úti núna og það er sól og blíða, smávindur og nokkur ský á himninum. Það er allt skraufþurrt,“ sagði Magnfríður Ólöf Pétursdóttir, markaðsstjóri Austurfarar, í samtali við mbl.is í dag. 

„Umfjöllunin virðist miðuð út frá einum landshluta. Manni finnst það meira að segja í sjálfum veðurfréttunum að túlkunin sé á einn veg. Aldrei er tekið sérstaklega fram að það sé þurrt á Egilstöðum. Fréttaflutningurinn er eins og menn séu hræddir við að beina umferðinni austur, eða sú er allavega tilfinning okkar sem hér erum.“

Hún segir Íslendinga ferðast eftir veðri og því ósanngjarnt að miða umfjöllun við einn landshluta. „Fólk kemur og er steinhissa að hér sé ekki allt á floti,“ sagði Magnfríður en Austurför rekur meðal annars tjaldstæðið á Egilsstöðum. „Við erum með garðúðarana úti að vökva hjá okkur.“

Eins sé með erlenda ferðamenn sem fylgist með veðrinu. „Þeir fussa og sveia yfir því að hafa ekki komið fyrr austur. Þeir hafa þá verið að basla í rigningu annars staðar á landinu áður en þeir koma á leiðinni í ferjuna á Seyðisfirði og hafa ekkert frétt af góða veðrinu hér.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka