Sendiráð Bandaríkjanna festi nýverið kaup á nýju húsnæði við Engjateig 7. Sendiráðið kaupir húsið af verktakafyrirtækinu Ístaki hf., en höfuðstöðvar fyrirtækisins voru þar til skamms tíma.
Fram kemur í tilkynningu frá sendiráðinu að samið hafi verið við Ístak um að gera endurbætur á húsinu svo það hæfi starfsemi sendiráðsins betur. Af teikningum er ljóst að nýja sendiráðið verður óárennilegt á að líta með nokkurs konar víggirðingu umhverfis lóðina.
Í sendiráði Bandaríkjanna er enginn sendiherra starfandi og hefur ekki verið síðan Luis E. Arreaga lét af störfum í nóvember á síðasta ári. Barack Obama Bandaríkjaforseti tilnefndi þá Robert Barber sem næsta sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Hann hefur þó enn ekki komið til landsins. Segir Paul Cunningham fjölmiðlafulltrúi sendiráðsins það skýrast af tregðu í öldungadeild þingsins.