„Dugar ekki að bíða eftir því sem ekki kemur“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Golli

„Ljóst er að yfirlýsing Junkers er áfall fyrir JÁ Ísland samtökin og aðra Evrópusambandssinna því hún endanlega klárar Evrópudraum þeirra, það sem meira er að finna þarf annan tilverurétt fyrir nýjan stjórnmálaflokk sem vitað að er í pípunum,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, í yfirlýsingu á vefsvæði sínu.

Þar segir Gunnar Bragi að ríkisstjórn Íslands hafi marg lýst því yfir að hún ætli ekki að halda áfram viðræðum við ESB og hafi hætt öllum samskiptum er lúti að umsókninni enda á móti inngöngu Íslands í ESB. Nú hafi nýr forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean Claude Juncker sagt að ekki verði um frekari stækkun næstu fimm árin. Hann ætli sér að sinna þeim löndum sem nú þegar eru í ESB, þétta raðirnar og vinna á hinum gríðarmörgu vandamálum sem sambandið glímir við.

„Þetta er i samræmi við mín fyrri orð um ESB og að ekki sé rökrétt að ganga i sambandið ekki síst þegar óvissan um þróun þess og framtíð er svo mikil. Junker ætlar sér að eigin sögn að taka á mörgum vandamála sambandsins. En miðað við verkefnafjöldann, stærð vandamálanna og þær endurbætur sem vinna þarf í á ESB er ljóst að 5 ár er stuttur tími og líklegra að það taki lengri tíma en það að klára vinnuna.

Árni Páll og Össur hafa líklega rétt fyrir sér að það séu amk 10 – 15 ár í að möguleiki sé á inngöngu fyrir Ísland en ekki vegna afturköllunar umsóknar heldur innri vandamála ESB . Vinstri sinnaðir Evrópusinnar eru í raun sjálfir komnir að þessari niðurstöðu með því að hvetja til fríverslunarsamninga við fjarlæg lönd í anda framsóknarstefnunnar og ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs,“ segir Gunnar Bragi.

Hann segir ennfremur að umræðan eigi að snúast um hvernig hægt sé að byggja Ísland upp fremur en að ræða um aðild að sambandi sem eigi í margvíslegum innri vanda. „Það dugar ekki að bíða eftir því sem ekki kemur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert