Enn meiri rigning sunnanlands

Svona lítur föstudagsveðrið út, samkvæmt spákorti Veðurstofu Íslands.
Svona lítur föstudagsveðrið út, samkvæmt spákorti Veðurstofu Íslands. Kort/Veðurstofa Íslands

Sunnlendingar geta gleymt því að leggja pollagallann á hilluna því útlit er fyrir að áfram rigni um landið sunnanvert og jafnvel mikið á köflum, samkvæmt Trausta Jónssyni veðurfræðingi.

Eins og mbl.is greindi frá í vikunni sem leið er þessi júlímánuður á topp 10 listanum yfir mestu úrkomuna í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1920, og þokast upp listann með hverjum deginum sem rignir.

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir á Hungurdiskum sínum í dag að háloftalægðarmiðjan sem landið hefur setið í síðan um mánaðamótin þokist nú norður af landinu og grynnist, en í staðinn komi ný lægð sem virðist ætla að lenda á sama stað og hin fyrri.

Hlýtt en blautt

Í þessu felst lítil bót á veðrinu fyrir Sunnlendinga. Á sama tíma er þurrara norðaustanlands en allra dæmigerðast er, að sögn Trausta, og mun lítið rigna inn til landsins í þeim landshluta.

Lægðin sem nú yfirgefur landið er þó ekki alveg búin að ljúka sér af ennþá, því næstu tvo sólarhringa mun hún hella uppsafnaðri úrkomu yfir landið. 

Með lægðinni sem tekur við síðar í vikunni fylgir ríkjandi sunnanátt, sem færir með sér mikla rigningu. Hið jákvæða er þó að sunnanáttin er hlý, sérstaklega norðaustanlands svo þar gætu mjög hlýir dagar verið framundan, rætist þessi spá. Það sem af er júlí er hitinn kominn upp fyrir meðallag á 23 sjálfvirkum stöðvum.

Trausti bendir hinsvegar á að grátlega litlu muni að Íslendingar fái hin raunverulegu hlýindi, sem hafa verið viðloðandi fyrir austan okkur, m.a. í Norður-Noregi, allan þennan mánuð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert