„Það er sjokkerandi að sjá hve mörg af þessum fallegu, gömlu húsum eru farin, því þetta er nú okkar saga, saga fólksins,“ segir Pálmi Gestsson, leikari og Bolvíkingur. Niðurrif í skjóli nætur á aldargömlu húsi í bænum hreyfði við bæjarbúum, sem komu saman á fjölmennum borgarafundi í gærkvöldi.
„Þarna komu vel á annað hundrað manns. Þetta var afskaplega vel heppnaður fundur og fróðlegur,“ segir Pálmi. Sjálfur hefur hann síðustu ár unnið að endurgerð elsta húss Bolungarvíkur og stendur málið honum því nær.
Fundurinn samþykkti ályktun um að skemmdarverkin á friðaða húsinu séu hörmuð og jafnframt skorað á bæjaryfirvöld í Bolungarvík að standa vörð um gömul hús og aðrar sögulegar minjar í byggðarlaginu. Enn fremur að bæjaryfirvöld hafi frumkvæði að uppbyggingu menningarverðmæta í bænum og standi fyrir húsakönnun íBolungarvík.
Húsið við Aðalstræti 16 í Bolungarvík, sem unnin voru skemmdarverk á í byrjun júlí, var byggt árið 1909 í Aðalvík á Hornströndum en flutt til Bolungarvíkur 1919. Tiltölulega fá hús frá svipuðum tíma hafa varðveist í Bolungarvík.
„Það er sorglega lítið eftir, ég hugsa að það séu í kringum 100 hús sem hafa verið brotin niður í gegnum tíðina,“ segir Pálmi. Á borgarafundinum í gærkvöld voru m.a. sýndar fjölmargar ljósmyndir af Bolungarvík eins og hún eitt sinn var.
Pálmi nefnir Hafnargötuna sem dæmi. „Það var eiginlega bara hjartaskerandi að sjá götumyndina frá gömlum tíma, að hún skuli vera algjörlega horfin. Bolungarvík á sér merkilega sögu, sem elsta verstöð á Íslandi, en við Bolvíkingar höfum því miður verið aftarlega á merinni að passa upp á þessa sögu okkar og þessi menningarverðmæti, því það er nánast búið að þurrka bæinn út eins og hann var fyrir 1960-1970.“
Gömlu myndirnar sem sýndar voru á fundinum í gær eru flestar úr safni Lárusar Benediktssonar, Bolvíkings, sem segist hafa sankað þeim að sér á löngum tíma vegna þess að hann saknaði þess umhverfis sem hann sjálfur man svo vel sem drengur í þorpinu.
„Það vantar talsvert mikla tengingu, saga þessara húsa og fólksins sem í þeim bjó er heimur sem er svolítið gleymdur,“ segir Lárus. „Við hefðum átt að taka Ísfirðinga til fyrirmyndar. Þar eru geysilega falleg hús sem setja gríðarlega sterkan svip á bæinn og þetta er það sem ferðamennirnir vilja skoða. Þau þjóna sínum tilgangi og eru gríðarleg menningarverðmæti.“
Lárus segist þó telja að það sé að verða vitundarvakning. „Vonandi verður þetta til þess að menn fari að huga að því að varðveita það sem eftir er. Við eigum enn hús, en þau eru að drabbast niður og það þarf að huga að þeim.“
Pálmi rifjar upp að föður hans, sem sjálfur var húsasmiður og ól allan sinn aldur í Bolungarvík, hafi stundum ofboðið framgangan þar sem nánast hafi verið mótuð opinber stefna um að eyða gömlu Bolungarvík og byggja nýja frá grunni.
„Hjá þessari kynslóð var allt sem var nýtt talið betra, þegar það varð velmegun á þessum tímum. Auðvitað voru þetta lítil híbýli og misjöfn, og það þarf alltaf eitthvað að víkja fyrir framförum, það er óhjákvæmilegt. En hér hefur verið farið fullgreitt í það og þetta var því miður nánast eins og gereyðingarstefna á tímabili.“
Þannig má segja að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Skemmdarverkið á friðaða húsinu hreyfði við Bolvíkingum. „Þetta var að mörgu leyti jákvæður og skemmtilegur fundur í gærkvöldi. Vonandi verður þetta til þess að fólk fari aðeins að huga að þessum dýrmætu, sögulegu minjum,“ segir Pálmi.
Sjálfur er Pálmi enginn nýgræðingur í þessum efnum, því hann hefur af alúð unnið að endurgerð elsta húss plássins, bárujárnshússins Hjara. „Ég er hér í 114 ára gömlu húsi sem átti að rífa. Faðir minn bjargaði því frá bráðum bana og ég tók að mér að gera það upp.“
Pálmi fæddist sjálfur í húsinu árið 1957 og á þar sterkur rætur. Það stóð autt í meira en áratug, grotnaði niður og fór þrýstingur vaxandi á að húsið yrði rifið, en eftir að Pálmi og eiginkona hans Sigurlaug Halldórsdóttir tóku við því lögðu þau nótt við nýtan dag að koma því í stand. Morgunblaðið fjallaði árið 2011 ýtarlega um þetta viðfangsefni þeirra hjóna.
„Mér rann blóðið til skyldunnar,“ segir Pálmi í samtali við mbl.is í dag. „Það er nú einhvern veginn þannig að þegar hús er rifið, þá vill sagan smám saman gleymast. Ekki bara saga hússins, heldur saga íbúanna. Þetta er bara virðing við forfeðurna. Við verðum að kannast við það hvaðan við erum komin og hvað hefur gert okkur að því sem við erum, til að skilja samhengi hlutanna. Ég held að án fortíðar sé lítil framtíð.“
Sjá einnig: