Vonbrigði fyrir hluta þjóðarinnar

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Norden.org/Magnus Fröderberg

Verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, sagði á Evrópuþinginu í gær að fleiri ríki fái ekki inngöngu í bandalagið næstu fimm árin eins og mbl.is fjallaði um í gær. Árni Páll Árnason, alþingismaður Samfylkingarinnar, segir að slík niðurstaða yrði vonbrigði fyrir stóran hluta þjóðarinnar.

Árni Páll segir að Evrópusambandið í núverandi mynd eigi erfitt með að stækka mikið nema leikreglum verði breytt með einhverjum hætti. „Þetta sýnir að það skiptir máli að nýta þau tækifæri sem við fáum þegar gluggar opnast. Það er ekkert gefið að sá gluggi sé alltaf opinn,“ segir hann.

Árni gagnrýnir núverandi ríkisstjórn sem hann segir að hafi reynst þjóðinni kostnaðarsöm. „Það sýnir sig nú hversu dýrt það er að hafa ríkisstjórn sem nú situr sem hefur afvegaleitt þetta mál með skipulögðum hætti eftir að hafa lofað þjóðinni atkvæðagreiðslu um framhald þess sem hún síðan sveik,“ segir Árni.

Afstaða ESB lituð af kreppunni

Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, segir að fyrirhugaðar áherslur Junckers komi hreint ekki á óvart.

Hann segir að þetta sé afstaða sem Evrópusambandsríkin hafi smám saman talað sig inn á í kjölfar austurstækkunar þess sem hefur reynt mjög á bandalagið. Fjármálakrísan hafi ennfremur sett þrýsting á það að klára ýmis innri mál áður en hugað verði að frekari stækkun, segir Eiríkur.

Einnig nefnir hann að áherslur Junckers muni þrengja stöðu sumra Balkanríkjanna og jafnvel ýta Tyrklandi út. Hann segir þó óljóst hvorum megin Ísland myndi falla.

Eiríkur telur að Evrópusambandið muni ekki halda áfram viðræðum við Ísland nema hér myndist skýr pólitískur stuðningur við það.

Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP
Eiríkur Bergmann
Eiríkur Bergmann mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka