Bíða eftir að geta dregið Kristinu

Fjöldi báta er nú við Kristinu EA sem steytti á skeri um sjö sjómílur úti fyrir Grundarfirði fyrr í kvöld. Leki kom að skipinu en unnið er að dælingu. Þá er beðið eftir stærri skipum sem dregið geta Kristinu í land. Skipið var á leið til Grundarfjarðar með afla.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Grundarfirði er engin bráð hætta á ferðum. Í fyrstu sigldi skemmtiferðaskipið Delphin að Kristinu en því var snúið frá eftir að í ljós kom að engin not voru fyrir það. Á svipuðum tíma komu björgunarbátar og aðrir bátar á vettvang með dælur auk þess sem þyrla Landhelgisgæslu Íslands var kölluð út.

Lögreglan segir að nóg sé af dælum á svæðinu til að hætta skapist ekki og, eins og áður segir, er beðið eftir stærri skipum sem geta dregið Kristinu á flot og í land. Líklegt er að það verði gert á flóði síðar í kvöld.

Stærsta skip íslenska fiskiskipaflotans

Frystitogarinn Kristina EA-410 er stærsta skip íslenska fiskiskipaflotans. Mesta lengd skipsins er 105 metrar, það er 20 metra breitt og 4.280 brúttórúmlestir. Í skipinu eru sjö þilför. 

Togarinn var smíðaður 1994 á Spáni. Í honum er 5.920 kW vél eða 8.051 hestafl, samkvæmt upplýsingum í skipaskrá. Mjög öflug frystitæki eru um borð í togaranum og mikið lestarrými.

Togarinn var keyptur til landsins árið 2005. Hann fékk nafnið Engey og hafði skráningarnúmerið RE-1 á meðan hann var í eigu HB Granda. Samherji keypti skipið árið 2007 fyrir hönd eins af dótturfélögum félagsins erlendis. 

Uppfært klukkan 20.45:

Kristina er laus af strandstað, samkvæmt upplýsingum frá fréttaritara mbl.is sem er á vettvangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert