Strand úti fyrir Grundarfirði

Björgunarsveitin Klakkur hefur verið kölluð út vegna tilkynningar um strandað skip sjö sjómílur úti fyrir Grundarfirði. Skipið er sagt 100 metrar að lengd en frekari upplýsingar um það fást ekki að sinni. Enginn um borð er talinn í bráðri hættu.

Talið er að um sé að ræða skuttogara á leið, en misvísandi upplýsingar fást frá björgunarsveitum og íbúum í Grundarfirði. Ljóst er þó að kallað hefur verið eftir aðstoð Landhelgisgæslu Íslands og er þyrla farin af stað.

Uppfært klukkan 19.15:

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslu Íslands er smávægilegur leki kominn að skipinu en engin hætta er þrátt fyrir það talin á ferðum.

Þá má sjá á Marine traffic að björgunarbáturinn Reynir frá Grundarfirði er kominn í grennd við skipið.

Uppfært klukkan 20.03:

Samkvæmt upplýsingum mbl.is er um að ræða skuttogarann Kristina EA, sem er í eigu Samherja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert