Marco Nescher, prentsmiðjurekandi og ljósmyndari frá Liechtenstein, flýgur um þessar mundir um Ísland í þyrlu sinni og tekur ljósmyndir fyrir bók sem hann hyggst gefa út í október. Í bókinni verða að finna fjölmargar landslagsmyndir af Íslandi ásamt viðtölum við tíu Íslendinga, þ.á.m. Andra Snæ rithöfund og Ómar Ragnarsson leikara, en Ólafur Ragnar Grímsson forseti ritar formála.
„Ég er heillaður af landinu og fólkinu hér. Ég elska landslagið og frelsið, hreinskilnina, vinsemdina og hjálpsemina sem mér er sýnt. Hér líður mér vel,“ segir Marco Nescher í samtali við mbl.is.
Eins og stendur er tvíeykið statt á norðaustur hluta landsins og hyggst verja nóttinni í Möðrudal. Næstu vikuna munu þeir svo fljúga um og taka sem flestar ljósmyndir fyrir bókina, sem ber heitið Über Island, Entdeckungen von oben, eða Yfir Ísland, uppgötvanir að ofan. Haraldur Diego, blaðamaður, sér um texta bókarinnar en viðtölin verða á dreif milli landslagsmynda Neschers.
„Við tókum viðtöl við allskonar fólk, hér og þar á Íslandi, og loftmyndir um allt Ísland.“
Nescher segir Ísland næstum vera önnur heimkynni sín, en alls hefur hann varið níu mánuðum á landinu, einkum við vinnu að bók sinni.
Hann kom fyrst til landsins árið 2011 í ferð ásamt eiginkonu sinni. Þau hjónin fóru í útsýnisflug um landið og þá segist Marco hafa „séð hversu fallegt Ísland er úr loftinu.“ Í kjölfarið hafði hann samband við Matthias Vogt, sem flýgur þyrlunni í ferðum þeirra, og varð úr að þeir flugu hingað yfir England og Færeyjar frá meginlandinu. Matthias er nú fluttur til landsins frá Liechtenstein og stundar nám við HR.
Nescher gaf blaðamanni mbl.is góðfúslega leyfi til að birta meðfylgjandi myndir, en þær eru forsmekkur af því sem vænta má af bók hans.
Tvíeykið frá Liechtenstein kom við hjá Jóni Loga Þorsteinssyni, leiðsögumanni í Rangárþingi eystra, í gærmorgun, en Jón var sá sem „reddaði“ Nescher hjónunum útsýnisflugi sínu árið 2011.
Þegar það var starfaði Jón sem tjaldvörður á Hvolsvelli. „Ég var að bursta klósett þegar maður kemur til mín, ræskir sig og gefur sig á tal við mig. Hann hafði heyrt í mér áður, en það vill svo heppilega til að ég tala þýsku, og hann spurði hvort ég vissi hver sæi um flugvöllinn í Hvolsvelli,“ greinir hann frá í samtali við mbl.is í dag.
Jón kveðst hafa falið klósettburstann á bakvið sig á meðan á samtali þessu stóð, en umræddur maður var einmitt Marco Nescher og Jón gekk í málið, hjónunum til mikillar lukku, og varð þeim úti um útsýnisflug. Liechtensteinbúarnir Marco og Matthias komu svo í heimsókn til Jóns árið 2012, þegar þeir flugu um landið í svipuðum erindum og þeir gera nú.
Í gær lentu þeir svo á glænýrri þyrlu í garðinum hjá Jóni til að koma í heimsókn milli ljósmyndaferða. Hin fjögurra ára dóttir Jóns, sem hafði ekki verið látin vita af heimsókn Liechtensteinbúanna, rak upp stór augu þegar hún sá þyrluna og lét pabba sinn tafarlaust vita hvernig statt var:
„Pabbi, það er þyrla í kartöflugarðinum!“