„Hann er alveg stórkostlegur og hefur dálítið aðdráttarafl þessi drengur,“ segir Elfa Dögg Leifsdóttir, móðir Dags Steins Elfu- og Ómarssonar, sem lét það í hendur Facebook að ákveða hvort hann fengi að fara á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Áhættan borgaði sig heldur betur, því margfalt fleiri en til þurfti hafa nú sett þumalinn á loft við myndina hans. Dagur er himinlifandi með árangurinn og segist spenntastur fyrir að sjá Jón Jónsson og Kaleo troða upp.
„Hann er mjög músíkalskur og elskar Jón Jónsson en svo hitti hann Kaleo á 17. júní og fékk af sér mynd með þeim sem hann er alveg ótrúlega ánægður með,“ segir Elfa.
Dagur verður fimmtán ára í desember og hefur að sögn móður hans mikið beðið um að fá að fara á Þjóðhátíð án foreldra sinna. „Hann er búinn að tala mikið um að hann vilji fara til Eyja, en þó alls ekki með okkur foreldrunum,“ segir Elfa hlæjandi.
Hún segist hafa bent honum á að maður þyrfti nú að vera átján ára gamall til þess að komast einn síns liðs en hann hafi ekki gefið sig. Hún segir Dag vera umkringdan góðu aðstoðarfólki sem honum hugnaðist betur til ferðarinnar og var því rætt um að þau gætu fylgt honum.
„Við sögðum honum að ef hann fengi eitt þúsund læk á Facebook myndina væri hægt að skoða þetta en okkur óraði ekki fyrir því að þetta myndi ganga,“ segir Elfa en viðurkennir að nú þurfi víst að standa við stóru orðin.
Aðspurð hvort Dagur sé ekki búinn að vinna sér inn rétt til þess að fara á Þjóðhátíð næstu þrjú árin þar sem lækin séu orðin þrefalt fleiri segir hún hlæjandi að það þurfi víst að skoða.
„Við hrukkum bara upp við símtal þar sem okkur var sagt að lækin væru orðin 1.800 talsins og föttuðum að við þyrftum víst að fara að skipuleggja þetta ef ferðin á að verða að veruleika. Þetta er ekkert svo auðvelt með alla hluti, hann er náttúrulega í hjólastól og þarf ýmsa aðstoð en við kýlum auðvitað bara á þetta,“ segir Elfa.
Hún segir aðdráttarafl Dags vera mikið því hann hafi safnað um átta hundruð þúsund krónum til styrktar Reykjadals fyrir Reykjavíkurmaraþonið í fyrra. Dagur ætlar að endurtaka leikinn í ár og mun handboltamaðurinn Þorgrímur Smári Ólafsson hlaupa með stólinn 21 km.
Elfa segir þá Þorgrím vera mikla vini og að Dagur sé ávallt grjótharður stuðningsmaður hans. Þorgrímur fór frá Val til HK í ár og því þurfti að endurnýja stuðningsmannabúninginn. „Hann var kominn með Valspeysu en nú er það ekkert vinsælt. Dagur er orðinn harður stuðningsmaður HK og mætir á alla leiki. Þegar Toggi skiptir um lið skiptir Dagur líka.“