„Gunnar Nelson er harðsvírað hörkutól“

Gunnar Nelson að glíma í Hörpu.
Gunnar Nelson að glíma í Hörpu. Ómar Óskarsson

„Gunnar Nelson er harðsvírað hörkutól. Hann segir ekki neitt, hann er mjög hljóðlátur og hógvær en mjög góður bardagamaður. Ég hef ekki áhyggjur af því að Gunnar taki mig niður,“ segir bardagamaðurinn Zak Cummings í myndbandi sem UFC birti. Þeir munu mætast á morgun í Dublin.

Zak er 29 ára gamall og kemur frá Texas, hann er um 84 kíló en Gunnar um 77 kíló, samkvæmt nýjustu mælingum.

Á heimasíðu Zak kemur fram að hann hafi unnið sautján bardaga, náð fjórum rothöggum og tapað níu bardögum.

Hann hefur einungis tapað einum af síðustu átta bardögum sínum og er ósigraður í UFC keppninni. Gunnar hefur hinsvegar unnið tólf bardaga en náði jafntefli í sínum fyrsta MMA bardaga sem fór fram í Kaupmannahöfn þann 5. maí árið 2007, að því fram kemur á heimasíðu Gunnars.

Gunnar Nelson hefur ekki áhyggjur af því að Zak sé þyngri og hærri en hann sjálfur og segir: „Þeir eru allir þyngri en ég, en ég er léttari, liprari og sneggri og kann að nýta mér það. Sumir einblína á þyngdina en ég hef aldrei verið þannig.“

Gunnar segir að hver bardagi sé sérstakur á sinn hátt enda mæti hann ávallt nýjum andstæðingum. Því hafi hann enga sérstaka leikáætlun áður en hann heldur inn í hringinn. „Það hefur alltaf hentað betur að fara inn og bregðast við þar,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

Síðustu dagana fyrir bardaga segist Gunnar slaka á með vinum og fjölskyldu. „Nú er bara búið að vera tiltölulega rólegur dagur í dag, maður fær sér aðeins að borða og æfir smá,“ segir hann.

Á meðfylgjandi myndbandi er kynning á þeim Gunnari Nelson og Zak Cummings. Einnig tala þeir stuttlega um hvorn annan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert