Álbóndi sem prentar listaverkin sín í ál

Í hverju listaverki eru margar myndir sem Oddur, sem stendur …
Í hverju listaverki eru margar myndir sem Oddur, sem stendur hér við eitt verka sinna, klippir og raðar. Ljósmynd/Jón Tryggvason

Oddur Eysteinn Friðriksson er sjálfmenntaður listamaður sem fer sínar eigin leiðir. Hann býr til klippimyndir sem hann lætur brenna á ál til að ná fram sérstakri áferð og fá bjarma í litina. Hann hefur vakið athygli fyrir verk sín og selt eitt þeirra til þekktrar raunveruleikapersónu í Bandaríkjunum.

Ég hafði engan áhuga á list og mér fannst list ekkert merkilegt fyrirbæri. En mig langaði til að búa eitthvað til sem ég myndi sjálfur vilja setja upp á vegg hjá mér. Þannig byrjaði þetta og ég hef fengið mikil og góð viðbrögð og margir þeirra sem hafa keypt af mér verk hafa aldrei áður keypt sér listaverk,“ segir Oddur Eysteinn Friðriksson sem hefur vakið þó nokkra eftirtekt fyrir klippimyndir sínar. „Ég byrjaði á þessu fyrir tveimur árum en fyrst fór ég í þó nokkra undirbúningsvinnu, því ég vildi skapa mér minn eigin stíl.“

Sneri blaðinu í hringi

Oddur segir að listamaðurinn Erró sé ein af hans fyrirmyndum í listsköpuninni. „Ég var hugfanginn af Erró þegar ég var krakki, mér fannst teiknimyndastíllinn hans flottur. Erró málar allar sínar myndir en ég nýti mér tækni tuttugustu og fyrstu aldarinnar og klippi og lími allar mínar myndir í tölvu,“ segir Oddur og bætir við að þegar hann var krakki þá teiknaði hann mikið. „Ég sneri alltaf blaðinu í hringi og á endanum var blaðið þéttskipað af allskonar myndum. Þetta var kannski upphafið af því sem ég er að gera núna, nema að nú teikna ég ekki myndirnar heldur sæki ljósmyndir og teikningar annað til að nota í verkin mín.“ Oddur segir að stíllinn hans hafi þróast og breyst. „Ég var ekki eins hnitmiðaður í byrjun, núna finnst mér ég hafa náð að fókusera betur, verkin mín eru orðin markvissari.“ Hann segir að fyrstu myndirnar hans hafi allar verið „silúett“ á svörtum bakgrunni, en síðan skipti hann upp og fór að nota hvítan bakgrunn með. „Núna fylli ég meira upp í bakgrunninn, með ljósmyndum eða öðru.“ Oddur segir að það sem á ensku fellur undir „popular cultures“ eða vinsæla menningu, hafi mikil áhrif á það sem hann velur í myndirnar sínar. „Ég skoða mikið hvað hefur verið vinsælt, það sem er vinsælt og það sem mun verða vinsælt, hvort sem það eru Star Wars-bíómyndirnar eða eitthvað nýrra.“

Myndirnar þola veðrun

Oddur er sjálfmenntaður listamaður sem hefur náð góðri færni í myndvinnslu en þó fór hann eitt sinn á námskeið um auglýsingar í prentmiðlum. „Þar lærði ég hvernig góðar auglýsingar eiga að vera, en ég hef alltaf verið mjög markaðsmiðaður, kannski af því pabbi minn er markaðsfræðingur. Þetta skilar sér í verkin mín,“ segir Oddur sem er fæddur í Reykjavík, en hann ólst upp í Bandaríkjunum og flutti síðan aftur heim til Íslands. Núna býr hann á Eskifirði. „Ég hef verið þó nokkur flökkukind, hef búið á ýmsum stöðum, bæði í útlöndum og úti á landi hér heima. En nú er ég sestur að hér á Eskifirði og ég vinn í álverinu á Reyðarfirði. Ég titla mig sem álbónda því í vinnunni fæ ég stundum sömu tilfinningu og þegar ég var í sveitinni hjá ömmu og afa sem voru bændur á Skógarströnd á Snæfellsnesi. Til dæmis þegar ég er að keyra lyftara og er umvafinn smurolíulykt, rétt eins og þegar ég var að keyra dráttarvélina hjá ömmu og afa.“ Oddur lætur prenta eitt stykki af öllum verkunum sínum í ál, til að fá ákveðna áferð og upplifun. „Þá verður bjarminn á litunum líkt og prentað hafi verið á bakhliðina á gler. Myndin er prentuð eða brennd inn í álið (e. infused), en ekki á álið. Þetta gerir það að verkum að endingartími myndanna er mjög langur og þær þola veðrun, geta verið úti og það má strjúka af þeim með blautri tusku. Ég vel líka myndefnið að hluta til út frá því hvað kemur vel út í álinu.“

Sendi Kenny póst

Oddur hefur selt eina af myndum sínum til Hollywood, en hana keypti raunveruleikastjarnan Kenneth Joel Hotz, betur þekktur sem Kenny í þáttunum Kenny vs Spenny. „Hann er mjög þekktur í Bandaríkjunum og hefur unnið til margra verðlauna fyrir störf sín. Hann hefur m.a. skrifað handrit fyrir þættina Southp Park sem margir þekkja hér á landi. Ég sendi honum skilaboð á Facebook og spurði hvort hann gæti sent mér ljósmynd af sér í góðri upplausn af því mig langaði að nota hana í verk hjá mér. Hann gerði það og á klippimyndinni sem ég bjó til er hann sjálfur í miðjunni, rétt eins og raunveruleikapersónan sem hann leikur, sem er mjög sjálfhverf. Kenny varð svo hrifinn af myndinni að hann keypti hana, í áli að sjálfsögðu.“

Þær eru margslungnar myndirnar hans Odds.
Þær eru margslungnar myndirnar hans Odds. mbl.is
Ein mynda Odds.
Ein mynda Odds. mbl.is
„Silúett“ af farartækjum Atap sem kemur fyrir í Star Wars-myndunum …
„Silúett“ af farartækjum Atap sem kemur fyrir í Star Wars-myndunum sem Oddur er hrifinn af. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka