Lík fannst við Háöldu við Landmannalaugar í gær. Talið er að það sé af Nathan Foley Mendelssohn, 34 ára Bandaríkjamanni sem hvarf 10. september í fyrra.
Málið hefur nú verið sent til kennslanefndar ríkislögreglustjóra til frekari rannsóknar.
Nathan ætlaði að ganga Laugaveginn og Fimmvörðuháls, frá Landmannalaugum að Skógum undir Eyjafjöllum, daginn sem hann hvarf.
Vonskuveður var á Laugaveginum þennan dag og höfðu björgunarsveitir á litlu að byggja við leitina. Þann 29. september fundust tjald og dýna á Laugaveginum sem talið er að hafi tilheyrt Mendelssohn.
Um tíma leituðu 150 björgunarsveitarmenn og þyrlusveitir að Mendelssohn en þann 7. október var leitinni formlega hætt.