„Ég skil ekki mennina“

Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég skil ekki mennina. Þeir sitja uppi með þessa skoðun en við höfum í miðstjórn flokksins tekið eins ákveðið og vel á þessu máli og hægt er,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, aðspurð um viðbrögð við úrsögn Hreiðars Eiríkssonar og Þorsteins Magnússonar úr flokknum.

Hreiðar og Þorsteinn hafa báðir sagt sig úr flokknum í liðinni viku vegna moskumálsins svokallaða. Telja þeir báðir að málið hafi ekki verið gert upp með viðeigandi hætti innan flokksins. Þá höfðu þrír aðrir áhrifamenn áður gert hið sama, þ.e. Ómar Stefánsson, Jenný Jóakimsdóttir og Ásta Hlín Magnúsdóttir.

Sigrún bendir á að ályktun hafi verið samþykkt á miðstjórnarfundi þar sem skírskotað var til stefnu flokksins varðandi málið. „Miðstjórnin er æðsta vald flokksins milli flokksþinga, þannig að æðsta stjórn flokksins hefur sagt sitt. Þannig gengur bara pólitík fyrir sig. Meirihlutinn ræður,“ segir hún.

Skynjuðu ekki félagshyggjuna

„Þetta eru tiltölulega nýir menn í flokknum en við vorum ánægð með þá og lyftum þeim til vegs og virðingar og kusum í okkar æðstu stjórn, kjördæmasambandið. Þar að auki er Þorsteinn Magnússon varaþingmaður. Þessir menn fengu skjótan framgang innan flokksins en hafa ekki skynjað félagshyggjuna. Það er ekki einn formaður sem ræður allri umræðu og þá síst um hvað talað er í einstökum sveitarfélögum,“ segir Sigrún.

Segir ummælin „absúrd“

Í pistil sem Hreiðar Ei­ríks­son birti á Facebook síðu sinni, þar sem hann tilkynnir úrsögnina, segir hann viðbrögð for­manns­ins og annarra for­ystu­manna flokks­ins eft­ir kosn­inguna hafa verið slík að vart væri hægt að skilja þau öðru­vísi en full­an stuðning við íslama­fób­ísk­an áróður. Sigrún segir ummælin vera „absúrd“. „Ég er bara í uppgjöf og skil þetta bara ekki. Við höldum fund og áréttum okkar stefnu. Hvernig í ósköpunum getum við verið að taka undir þetta? Það er ekki hægt að taka fastar á þessu mál en þegar hundrað manns ítreka á hvað við trúum. Hvort vegur meira, tal tveggja manna eða yfir hundrað manna?“

„Menn hljóta að skilja að þegar samþykkt er fallin á fjölmennum fundi með öllum greiddum atkvæðum geta þeir ekki sagt sig úr flokknum vegna þess að þeir vildu orða tillöguna öðruvísi. Þetta er bara ótrúlegur skortur á félagshæfni, það er að skynja út á hvað félagsskapur gengur en stjórnmálaflokkur er ekkert nema útvíkkun á því,“ segir hún.

„Þeir bera fyrst og fremst ábyrgðina“

„Finnst þér ekki skrýtið að menn sendi yfirlýsingar á fjölmiðla þegar þeir segja sig úr flokki? Menn eru sífellt að ganga í og úr flokkum. Af hverju börðu þeir ekki í borðið í kosningabaráttunni?“ spyr Sigrún og segir þá báða hafa setið í kjördæmasambandi og hafa sem slíkir borið ábyrgð á framboðinu. „Þegar menn sitja sjálfir í kjördæmasambandi taka þeir líka á sig ábyrgð. Það eru eiginlega fyrst og fremst þeir sem eru ábyrgðarmennirnir. Það voru þeir sem völdu þær í framboðið. Sigmundur Davíð eða ég sem þingflokksformaður komum ekki þar nálægt.“

Reyndi að setja málið í víðara samhengi

Þá segir hún úrsögn þeirra afsanna það að moskumálið hafi verið spunnið upp af stjórn flokksins, stjórn sem þeir báðir sátu í. „Afsögn þeirra sannar hvað þetta kom öllum á óvart. Frambjóðandi fer að svara spurningum og er á móti staðsetningu mosku.“

„Einu sinni í Kópavogi átti að rísa þar kirkja. Hún átti að vera upp á hól. Fjöldahreyfing mótmælti því að hún yrði byggð á svo áberandi stað og hún færð í slakkann. Ég ímynda mér ekki að Kópavogsbúar séu trúleysingjar. Það hafa alltaf verið deilur um staðsetningar.“ 

Í fréttatilkynningu Þorsteins þar sem hann tilkynnti úrsögn sína sagði hann boðskap­ Framsóknar í aðdraganda kosninganna hafa mátt skilja sem svo að fram­boðið teldi að með til­komu mosku í Reykja­vík ykj­ust lík­ur á ýms­um sam­fé­lags­leg­um vand­mál­um, þ. á m. lög­brot­um.

Sigrún segir Sveinbjörgu hafa verið að setja málið í víðara samhengi. „Konan var í miðri kosningabaráttu og fór út á þennan vígvöll. Í góðsemi benti hún fólki á að skoða þessi mál og hvort menn læsu um að verið væri að setja lög í Svíþjóð.“

Sigrún segist ánægð með störf Sveinbjargar og Guðfinnu, sem skipa 1. og 2. sæti flokksins í Reykjavík. „Þær báðar eru hörkukonur. Vitaskuld er ég ánægð með svona myndarlegar og öflugar konur.“

Þorsteinn Magnússon.
Þorsteinn Magnússon.
Hreiðar Eiríksson
Hreiðar Eiríksson Mynd/Facebook
Efsta fólk á lista framsóknarmanna og flugvallarvina. Hreiðar er lengst …
Efsta fólk á lista framsóknarmanna og flugvallarvina. Hreiðar er lengst til vinstri og Sveinbjörg fyrir miðju. www.framsokn.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert