Frá árinu 2008 hefur verslunin IKEA boðið upp á ókeypis mat fyrir börn 12 ára og yngri á matsölustað sínum en frá og með september verður breyting þar á. Þá mun hann kosta 345 krónur.
„Í hruninu 2008 var ákveðið að hafa barnamat frían og við höfum verið að gefa um 70-80 þúsund skammta á ári, sem er ansi mikið. Þetta er því samtals um hálf milljón skammta sem hafa verið gefnir frá árinu 2008. IKEA hefur alltaf lagt áherslu á fjölskyldufólk og við vitum að ekki verða allir sáttir við þessa breytingu, en þetta fyrirkomulag átti samt aldrei að vera að eilífu og við teljum að hruninu hafi lokið fyrir þó nokkru.
Allur ágóði af sölu barnamatarins mun fara til Forvarnarhússins sem við erum aðalstyrktaraðilinn að. Við ætlum að koma enn betur að því verkefni en áður,“ segir Þórarinn Ævarson, framkvæmdastjóri IKEA, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.