Vill sjá Opruh Winfrey í pólitík

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur.
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég er mikill aðdáandi Opruh Winfrey. Við þurfum á fólki eins og henni að halda í stjórnmálum og ég myndi hafa gaman af því að starfa með henni því hún myndi skilja mig,“ segir Jón Gnarr í viðtali við tímaritið Truth Out. Þar er hann einnig spurður hvort hann sé með augastað á Bessastöðum.

Aðspurður hvort hann ætli sér í forsetaframboð segir Jón: „Ég er opinn fyrir hugmyndinni. Þetta er eitthvað sem ég hef ekki haft tíma til þess að hugsa um en ég myndi segja að ég sé opinn fyrir því.“

Völd eru hættuleg

Í viðtalinu ræðir Jón töluvert um völd stjórnmálamanna og áhrifin sem völd hafa á fólk. „Völd eru hættuleg. Allar rannsóknir benda til þess. Völd hafa ófyrirséð áhrif á okkur og á margan hátt geta völd leitt til valdafíknar. Þetta er svolítið eins og eiturlyf,“ segir Jón og nefnir síðan dæmi um það þegar hann hafi sjálfur fundið fyrir áhrifum valdanna. 

„Ég man eftir því einu sinni þegar Gallup gerði könnun á valdamesta fólki landsins og ég varð í þriðja sæti á eftir Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Ég hugsaði: Vá! Þetta kemur hjartanu af stað. Á einhvern hátt er mjög freistandi að nýta sér völdin af því að þau eru ósýnileg. Maður nýtir sér völdin með því að framkvæma hlutina.“

„En ég hef aldrei haft áhuga á völdum, ég vil ekki vera valdamikill.“

Grínið og kjánaskapurinn var nauðsynlegur

Spurður hvernig hann náði árangri með Besta flokknum og hugmyndafræði hans segir Jón það vera eitthvað sem hann hafi lengi velt fyrir sér áður en hann fór inn á svið stjórnmálanna. Síðan segir Jón að árangurinn megi að miklu leyti líka rekja til einfeldninnar og grínsins. Með því hafi hann getað haldið frá fólki sem hann vildi ekki starfa með. 

 „Þetta tengist líka kjánalegheitunum og þessi einfeldningslegi karakter sem ég bjó til og varð síðan að þessum bjartsýna einfeldningi. Af því að það virkar á fólkið sem þú vilt ekki að sé að skipta sér að hlutunum, gáfaðir furðufuglar sem eru alltaf að reyna að taka þátt í einhverjum mótmælum bara til þess að vera á móti einhverju. Margir sem kalla sig anarkista vilja bara vandræði. Þeir eru bara í þessu fyrir sjálfa sig og hafa litla samúð og koma ekki vel fyrir, en eru með fullt af hugmyndum. Ég vildi ekki fá þannig fólk í lið með mér af því að mér finnst þannig fólk neikvætt og leiðinlegir karakterar. Með því að hafa framboðið kjánalegt varð það til þess að þeir höfðu engan áhuga á að taka þátt.“ 

Sjá frétt Truth Out

.
. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert