„Fólkið sækir í sólina. Þó að hér hafi hellirignt í allan dag þá hafa síðustu dagar verið góðir og spáin er ljómandi fín. Fólk hefur því hafst hér við og bíður eftir blíðviðri morgundagsins.“
Þetta segir Myrra Mjöll Daðadóttir, tjaldvörður í Atlavík í Hallormsstaðaskógi á Héraði, í samtali í Morgunblaðinu í dag.
Mikil aðsókn hefur verið að tjaldsvæðunum í Hallormsstaðaskógi síðustu daga. Þar voru fyrir um helgina á bilinu 800-1.000 gestir í 300-400 tjöldum eða farhýsum. „Með þessu eru tjaldsvæðin hér nánast fullsetin. Metið var þó í fyrra, 20. júlí, þegar hér voru ríflega 1.500 manns yfir nótt,“ segir Myrra.