Mikil úrkoma, óvenjumikill snjór í fjöllum og sjávargangur hefur valdið meira jarðsigi en venjulega undir Siglufjarðarvegi á Almenningum, að mati Sveins Zophoníassonar, verkstjóra hjá Bás, vélaleigu og steypistöð, sem hefur unnið við viðhald á veginum fyrir Vegagerðina.
„Við erum búnir að vera annað slagið á veginum alveg síðan í apríl. Hann er búinn að síga ört og þetta er ekki það sem maður kallar venjulegt ástand,“ segir Sveinn í umfjöllun um ástand vegarins í Morgunblaðinu í dag.
Þekkt hefur verið að landið sé að síga á um sex til sjö kílómetra kafla á veginum allt frá því að hann var fyrst lagður á sjöunda áratugnum. Jóhannesi Ríkharðssyni, bónda á Brúnastöðum í Fljótum, sýnist hins vegar að hreyfingin á veginum fari vaxandi með árunum.