Karlmaður á fimmtugsaldri, sem handtekinn hefur verið á degi hverjum í rúman hálfan mánuð fyrir að svíkja út veitingar á veitingastöðum auk annarra smáafbrota, á við veikindi að stríða samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn hefur hafnað allri aðstoð frá félagsmálayfirvöldum. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar er almenna reglan sú að ekki sé hægt að neyða fólk til þess að þiggja aðstoð og yfirleitt finnist fólki hana skorta fremur en að fólk hafni því að þiggja hana.
Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er maðurinn grunaður um tugi smárra afbrota samhliða afbrotunum á veitingahúsunum. Hann hefur komið við sögu hjá lögreglunni á hverjum degi undanfarnar vikur en fram að því hafði lítið borið á honum í bókum lögreglunnar. „Þetta er einstaklingur sem er veikur og heimilislaus. Mál hans er í vinnslu hjá lögreglu en ekki síður hefur verið reynt að leita úrræða fyrir hann í heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu. Þau úrræði hafa ekki fundist enn sem komið er,“ segir Kristján.
Aðspurður segir Kristján að ekki sé algengt að fólk stingi af undan reikningum og að ekki sé að finna sérstaka þróun í þá átt. „Þetta mál er svo til einstakt sökum þess að þessi einstaklingur hefur komið við sögu hjá okkur ítrekað á svo skömmum tíma eins og raun ber vitni. Alls er um að ræða á þriðja tug brota,“ segir Kristján.
Mál einstaklinga sem þurfa á hjálp félagsþjónustunnar að halda eru ekki rædd í fjölmiðlum. En samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar er almenna reglan sú að lítið sé hægt að gera ef sjálfráða einstaklingur hafnar aðstoð félagsmálayfirvalda. Sjaldgæft er að fólk hafni aðstoð og í slíkum tilfellum er allra leiða leitað til þess að koma fólki til hjálpar. Mikill fjöldi fær aðstoð frá borginni og í langflestum tilfellum er hún þegin með þökkum og flestir vilja meiri þjónustu en þá sem er í boði. Í þeim tilfellum sem fólk hafnar aðstoð er hægt að hafa samband við það reglulega til að bjóða þjónustuna. Annað úrræði er ekki í boði og enginn sjálfráða einstaklingur er þvingaður til að þiggja aðstoð.
Sjá einnig: