Vilja að dauði hennar hafi tilgang

Lovísa Hrund Svavarsdóttir
Lovísa Hrund Svavarsdóttir Mynd/Hrönn Ásgeirsdóttir

„Lovísa var svo góð manneskja og vildi öllum vel. Hún var svo ótrúlega umhyggjusöm og ég veit að fyrst hún þurfti að deyja hefði hún viljað að það hefði einhvern tilgang,“ segir Hrönn Ásgeirsdóttir, móðir Lovísu Hrundar Svavarsdóttur, sem lést þann 6. apríl 2013 í hörðum árekstri á Akrafjallsvegi þegar ölvaður ökumaður sem kom úr gagnstæðri átt keyrði í veg fyrir hana.

Foreldrar Lovísu hafa stofnað minningarsjóð Lovísu Hrundar sem ætlað er að stuðla að fræðslu og forvörnum gegn akstri ökutækja undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna. Sjóðurinn mun veita styrki til forvarnaverkefna og þannig styðja við þá sem hafa áhuga á að leggja baráttunni lið. Fyrsta úthlutunin fer fram 5. október, þegar Lovísa hefði orðið nítján ára gömul.

Vilja ekki að aðrir lendi í því sama

Móðir Lovísu hyggst hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar sjóðsins. Hún segir fjölmargar hugmyndir vera á lofti og langar að fá landsmenn alla til að taka þátt í verkefninu. „Til þess þurfum við fjármagn og við stólum mikið á hlaupið núna. Þetta er hugsað fyrir alla einstaklinga í landinu því við viljum ekki að aðrir þurfi að lenda í þessum hryllingi. Hún dó ekki af slysförum heldur er þarna ölvaður gerandi.“

Sáu hversu algengur ölvunarakstur er 

Vinnun við sjóðinn hefur hjálpað foreldrum Lovísu við að takast á við sorgina og segist Hrönn þakklát fyrir stuðninginn sem þau hafa fengið. „Eftir slysið komumst við að því hversu rosalega algengt þetta er. Það virðist sem krökkum finnst almennt í lagi að setjast upp í bíl eftir að hafa fengið sér einn eða tvo, ég veit ekki hvort það sé uppeldið eða hvað sé eiginlega í gangi.“

Hún telur forvarastarfi í dag vera ábótavant og vonast til þess að fólk geti sótt í sjóðinn til þess að vekja athygli á alvarleika vandamálsins. „Einhverra hluta vegna virðist sem allir hafi verið sofandi á vaktinni gagnvart þessu. Öllum finnst hræðilegt að hún skuli hafa lent í þessu, orðið fyrir svona óréttmætum verknaði, en þó virðist ekki vera vera tekið á málinu.“

„Eins ljótt og þetta gat verið“

Ökumaður bifreiðarinnar var dæmdur í tólf mánaða fangelsi, þar af níu skilorðsbundna, fyrir manndráp af gáleysi. Í ákæru kom fram að vín­anda­magn í blóði kon­unn­ar hafi verið allt að 2,7 pró­mill. Þá segir að hún hafi ekið án aðgæslu og of hratt miðað við aðstæður á allt að 94 km hraða á klukku­stund, yfir á rang­an veg­ar­helm­ing miðað við akst­urs­stefnu. 

Hrönn segir dóminn vera gjörsamlega fáránlegan og telur nauðsynlegt að löggjafinn taki málaflokkinn til endurskoðunar. „Það sést bara hvað líf hennar var lítils metið. Konan sem ók bílnum var sótölvuð og gerði ekkert til þess að hjálpa henni. Hún reyndi að hindra það að hringt yrði í neyðarlínuna. Þetta var eins ljótt og þetta gat verið og að fá svona dóm er bara rosalega sárt þegar á sama tíma er verið að dæma menn í margra ára fangelsi fyrir peningaþjófnað,“ segir hún.

Vilja þyngri dóma við ölvunarakstri

Hún telur fælingarmáttinn vera engan. „Þú ert kominn með svo mikið drápstæki í hendurnar þegar þú sest upp í bíl. Umferðarlögin eru úr sér gengin, bílarnir eru orðnir þyngri og hættulegri. Það þarf að þyngja dómana og hækka sektirnar til þess að það hafi einhvern fælingarmátt út í samfélagið.“

„Það virðist þó enginn vilja hrófla við þessu. Ótrúlegasta fólk er að keyra eftir einn eða tvo. Öllum virðist þykja þetta hræðilegt en enginn tekur á því.“ 

„Við erum með margar hugmyndir en vantar meðbyr. Það þarf alltaf peninga til þess að skapa. Þetta á ekki að vera þannig að fjölskyldan hennar Lovísu sé ein að reyna að gera eitthvað. Við þurfum öll að vinna saman,“ segir hún.

Hægt er að heita á málefnið á síðu Hrannar á hlaupastyrkur.is

Lovísa Hrund ásamt móður sinni, Hrönn Ásgeirsdóttur.
Lovísa Hrund ásamt móður sinni, Hrönn Ásgeirsdóttur. Mynd/Hrönn Ásgeirsdóttir
Lovísa ásamt foreldrum sínum, Svavari Skarphéðni Guðmundssyni og Hrönn Ásgeirsdóttur
Lovísa ásamt foreldrum sínum, Svavari Skarphéðni Guðmundssyni og Hrönn Ásgeirsdóttur Mynd/Hrönn Ásgeirsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert