Framkvæmdir standa nú yfir á fangelsinu á Hólmsheiði. Örn Baldursson, verkefnastjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, segir framkvæmdir vera á áætlun.
„Framkvæmdum miðar samkvæmt áætlun og verklok eru 1. desember 2015. Núna er framkvæmdin á þeim stað að verið var að ljúka við uppsteypu sökkla og þá verður hafist handa við að reisa veggeiningar. Í lok árs verður þá fangelsið orðið fokhelt, þ.e. allri steypuvinnu verður lokið. Þá verður hafist handa við að klæða húsið að utan og ganga frá því innanhúss,“ segir Örn.
Hann segir að fyrstu fangarnir verði fluttir í fangelsið í apríl 2016. Fangelsið mun hýsa 56 fanga, aðallega gæsluvarðhaldsfanga.