Reykingar óbærilegar nágrönnum

Reykingar - Fjölmargir kvarta undan reykingum nágranna sinna.
Reykingar - Fjölmargir kvarta undan reykingum nágranna sinna.

„Dæmi eru um að hrikaleg tilvik um stórfelldar og tillitslausar reykingar á svölum íbúða verði óbærilegar fyrir nábýlisfólkið,“ segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, í samtali við mbl.is í dag. Félagið hefur fengið fjölmargar fyrirspurnir á borð til sín vegna óþæginda sem hljótast af reykingum á svölum nágranna, en í sumum tilfellum getur slíkt brotið í bága við lög og haft neikvæð áhrif á fasteignaverð.

Eigandi má gera það í sinni eign sem er venjulegt og eðlilegt, að sögn Sigurðar, en til að leggja mat á það verður að horfa til þess sem tíðarandinn telur við hæfi á hverjum tíma. „Reykingar eru á hröðu undanhaldi og reykingarfólk hefur víðast  hrökklast  út undir bert loft; út á svalir, tröppur, undir gafla og í skúmaskot, þar sem það hímir og  blótar á laun, flóttalegt og sakbitið,“ segir hann til að lýsa síbreyttu umhverfi reykingarfólks. 

Réttur til að reykja eða réttur til reykleysis?

Í ýktum tilvikum er húsfélagi rétt og skylt af sjálfsdáðum eða að kröfu þolenda að leggja bann við reykingum eða setja þeim takmarkanir. Ef reykingarfólkið lætur ekki segjast getur húsfélagið eða þolendur gripið til þeirra úrræða sem fjöleignarhúsalögin hafa að geyma og í grófum tilvikum krafist þess að viðkomandi flytji og selji íbúð sína, að sögn Sigurðar.

Það eru engin bein ákvæði í fjöleignarhúsalögunum um reykingar. Í þeim er almennt boðið að íbúar skuli gæta þess að valda sambýlisfólki sínu ekki óþarfa ama og óþægindum. Reykingar falla þar undir eins og aðrar mannlegar athafnir og ósiðir. Þegar reykingar og skorður við þeim eru skoðaðar verður að líta til þess yfirlýsta markmiðs tóbaksvarnarlaga að virða skuli þann rétt fólks að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk.

Tryggja að fólk verði ekki fyrir skaða

Bæði eru í gildi lög um tóbaksvarnir og eins reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum. Þegar litið er á lögin þá kemur þar fram að virða skuli „rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra.“ Markmið laganna er að vernda fólk gegn áhrifum tóbaksreyks.

Í reglugerð um tóbaksreykingar kemur ennfremur fram að markmið hennar sé að tryggja að þeir sem ekki reykja verði ekki fyrir skaða og óþægindum af völdum tóbaksreyks.

Í 6. grein reglugerðarinnar segir að þar sem leyfðar eru reykingar utanhúss skuli þess gætt að tóbaksreykur berist ekki inn í húsnæði sem svæðið tilheyrir eða húsnæði annarra, hvort heldur er um dyr, glugga eða loftinntök.

Þá segir í 9. grein sömu reglugerðar að þess skuli gætt að tóbaksreykur berist ekki inn í vistarverur fólks í nærliggjandi húsnæði vegna fyrirkomulags loftræstingar, sbr. byggingarreglugerð og heilbrigðisreglugerð.

Af lögunum og reglugerðinni að dæma virðist sem réttur reyklausra íbúa í fjölbýlishúsi sé nokkuð skýr.

Eiga í vændum frekari úthýsingu

Hvað snertir reykingar á svölum, þá er ekki útilokað að húsfélag geti takmarkað þær með einhverjum almennum hætti en þó verður að hafa hugfast að svalir eru að sínu leyti í séreign og að vald og húsfélags til að setja reglur um hagnýtingu séreignar eru miklu þrengri en þegar um sameign er að tefla. Þá reynir á friðhelgi séreignaréttarins og það frelsi til hagnýtingar og athafna, sem í honum felst.

„En um svalareykingar og reykingar endranær gildir hið sama um þverrandi umburðarlyndi og vaxandi skorður á reykingarrétti,“ segir Sigurður. „Það er alveg ljóst að réttarþróunin og almenningsálitið stefna hraðbyri í átt að frekari þrengingum í garð reykingarmanna. Þar sem þeir áttu forðum góðar stundir og griðastaði eru þeir nú útlægir. Eiga þeir vísast í vændum frekari úthýsingu, harðindi og hremmingar.“

"Það er alveg ljóst að réttarþróunin og almenningsálitið stefna hraðbyri í átt að frekari þrengingum í garð reykingarmanna." AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert