Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir brýnt að huga að viðhaldi vega næstu árin.
Tilefnið eru þau ummæli Hreins Haraldssonar vegamálastjóra í Morgunblaðinu í gær að vegna ónógs viðhalds sé hætta á „að vegakerfið smám saman brotni niður og verði hættulegt umferðinni“.
„Ríkisstjórnin hefur ítrekað sagt að við viljum halda samgönguáætlun, sem er gerð til fjögurra ára,“ segir Hanna Birna í Morgunblaðinu í dag. „Við viljum reyna að tryggja að það fjármagn sem gert er ráð fyrir á næstu fjórum árum haldist. En hvernig það raðast niður á ár, eins og ég hef ítrekað sagt á þingi, get ég ekki fullyrt um núna. Við erum að miða við sama fjármagn á næstu fjórum árum. Við erum mjög meðvituð um það og ég er sammála því sem haft er eftir vegamálastjóra í Morgunblaðinu, að öryggi og viðhald er forgangsatriði á næstu árum.“